Lífið

Hrefna Rósa blandar sósur

Í sumar verður hægt að kaupa matvæli frá kokknum Hrefnu Rósu Sætran sem sendir frá sér vörulínu undir eigin nafni. Hér er hún ásamt manni sínum Birni Árnasyni og syninum Bertram Skugga.
Í sumar verður hægt að kaupa matvæli frá kokknum Hrefnu Rósu Sætran sem sendir frá sér vörulínu undir eigin nafni. Hér er hún ásamt manni sínum Birni Árnasyni og syninum Bertram Skugga.
„Mig langar að gera gúrmevöru aðgengilegri fyrir almenning," segir kokkurinn Hrefna Rósa Sætran en sósur úr hennar smiðju eru væntanlegar í verslanir í júlí.

Hrefna Rósa er komin í samstarf við matvælafyrirtækið ORA um að hefja framleiðslu á eigin vörulínu og fyrstu vörurnar sem koma á markaðinn eru kaldar sósur. Hrefna Rósa er ánægð með að loksins sé að verða af þessu en verkefnið hefur verið í bígerð lengi.

„Mig hefur lengi langað að gera þetta og það hefur alltaf verið á langtímaplönunum að búa til eigin vörulínu. Þegar ORA hafði samband ákváð ég að slá til," segir Hrefna en línan verður skírð í höfuðið á henni.

Um fjórar tegundir af sósum er að ræða, eina sem passar vel við grísakjöt og hamborgara, eina fyrir steikur, eina fyrir fisk og eina sem passar með grænmeti. „Sósurnar eiga að passa allan ársins hring og margir ættu að kannast við þær frá Fiskmarkaðnum. Þetta eru ekki beint framandi sósur heldur góður grunnur með smá tvisti," segir Hrefna Rósa sem býr til allar uppskriftirnar sjálf.

Hrefna segir sósurnar bara vera upphafið að stærri línu. „Það er markmiðið að gera matvælalínu með fjölbreyttu úrvali af vörum í nánustu framtíð."-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×