Skotinn Andy Murray vann í dag gullverðlaun fyrir hönd Breta í einliðaleik karla í tenniskeppni Ólympíuleikanna. Murray hafði betur gegn Roger Federer í úrslitaleiknum.
Kapparnir mættust einnig í úrslitaleik Wimbledon-mótsins fyrir fjórum vikum þar sem Svisslendingurinn hafði betur. Í dag hafði Murray frumkvæðið en lokatölurnar urðu 6-2, 6-1 og 6-4.
Segja má að flest hafi fallið með Murray sem var dyggilega studdur af löndum sínum á aðalvellinum í dag. Skotinn spilaði frábæran tennis og Federer, sem vantar aðeins Ólympíugullverðlaun í einliðaleik í verðlaunasafn sitt, átti engin svör.
Murray tryggði sér sigur í síðustu lotunni með tveimur ásum áður en hann stökk upp í stúku og fagnaði sigrinum með fjölskyldu sinni.
Argentínumaðurinn Juan Martin del Potro nældi í bronsverðlaun eftir sigur á Serbanum Novak Djokovic 7-5 og 6-4.
Dagsverkið hjá Murray er þó aðeins hálfnað því framundan er úrslitaleikur hans og Lauru Robson í tvenndarleik. Þar mæta Bretarnir Max Mirnyi og Victoriu Azarenku frá Hvíta-Rússlandi.
Bretar hafa nú unnið til sextán gullverðlauna og 31 verðlauna samtals. Þeir eru í þriðja sæti á eftir Kína og Bandaríkjunum sem eru í sérflokki með 57 og 55 verðlaun.

