Sport

Federer í úrslit eftir sigur á Djokovic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roger Federer vann í dag góðan sigur á Novak Djokovic, efsta manni heimslistans og ríkjandi Wimbledon-meistara, í undanúrslitum Wimbledon-mótsins.

Federer hefur unnið mótið sex sinnum á ferlinum og getur því bætt sjöunda titlinum í safnið á sunnudaginn. Hann mætir annað hvort Andy Murray eða Jo-Wilfried Tsonga í úrslitunum en þeir eigast við síðar í dag.

Viðureignin í dag var frábær skemmtun. Federer vann fyrsta settið 6-3 en Djokovic svaraði í sömu mynt. Úrslitin réðust að stórum hluta í þriðja settinu þar sem hart var barist. Federer reyndist einfaldlega betri og fagnaði sigri, 6-4.

Í fjórða settinu náði Federer ótvíræðum yfirburðum en Djokovic, sem er þekktur fyrir að gefast aldrei upp, náði aðeins að klóra í bakkann í lokin. En það var of seint og sá svissneski tryggði sér sigur með því að vinna settið, 6-3, og þar með viðureignina 3-1.

Bandaríkjamaðurinn Pete Sampras er sá eini sem hefur unnið Wimbledon-mótið oftar en Federer eða sjö sinnum. Með sigri kemst Svisslendingurin upp að hlið Sampras. Þar sem Novak Djokovic og Rafael Nadal, efstu tveir menn heimslistans, eru nú báðir dottnir úr leik á mótinu er ljóst að Federer fer í efsta sæti heimslistans með sigri á sunnudaginn.

Hvorki Murray né Tsonga hafa spilað til úrslita áður á Wimbledon og því ljóst að sagan verður á bandi Federer á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×