Leikmenn íslenska U20 ára landsliðs karla í handknattleik eru rassskelltir þrátt fyrir að ekki sé um hefð að ræða. Þetta staðfesti Árni Benedikt Árnason, leikmaður U20 ára liðsins í samtali við Vísi í gærkvöldi.
Í umfjöllun undirritaðs í Fréttablaðinu á fimmtudag kom fram að rassskellingar tíðkuðust ekki sem vígsluathöfn í yngri landsliðum Íslands. Vitnað var í ónafngreinda leikmenn með yngri landsliðum Íslands auk Árna Benedikts Árnarsonar í U20 ára landsliði Íslands.
„Ljótt er það, þegar tvítugir strákar eru farnir að ljúga að fréttamönnum. Það eru víst rasskellingar í U-20 í handbolta," skrifaði Arnar Daði Arnarsson, leikmaður Vals og félagi Árna Benedikts í U20 ára landsliðinu á Twitter-síðu sína á fimmtudag. Arnar Daði merkti færsluna #væll.
Arnar Daði birti í kjölfarið tengil á mynd af illa förnum afturenda liðsfélaga síns eftir vígsluathöfn.
„Svona líta flestir út eftir almennilegar flengingar. Þetta er samt ekki jafnvont og það lítur út fyrir að vera. Að minnsta kosti fannst mér það ekki," segir Árni Benedikt sem þvertekur fyrir að um hefð sé að ræða.
„Það er algengt að menn séu plataðir í flengingu en ef þeir vilja það ekki er það ekkert mál," segir Árni Benedikt og bætir við að menn taki vel í þetta og hafi bara gaman af.
Íslenska U20 ára landsliðið keppir í úrslitakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Tyrklandi fyrri hluta júlímánaðar.
Hér fyrir neðan er tengill á umfjöllunina í Fréttablaðinu á fimmtudaginn.
