Skoðun

15 milljarða króna gjöf ríkisins

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Fréttablaðið birti á forsíðu sinni frétt um mikil uppgrip í uppsjávarveiðum. Veiðar á makríl, síld og loðnu munu væntanlega skila um 75 milljörðum kr. í þjóðarbúið. Það eru góðar fréttir fyrir marga, en sérstaklega fyrir útgerðina sem græðir á tá og fingri um þessar mundir. Það gæti líka verið sérstaklega góðar fréttir fyrir ríkissjóð, en eru það ekki.

Ríkissjóður hefði getað fengið um 16 milljarða króna í sinn hlut fyrir úthlutun veiðileyfisins, ef stuðst er við verð sem útvegsmenn sjálfir hafa verið reiðubúnir að greiða og forsendur Alþingis við viðbótarúthlutun á skötusel. Það var látið ógert og ríkissjóður tekur sér aðeins um 730 milljónir króna.

Mismunurinn er um 15 milljarðar króna. Minna má nú gagn gera útvegsmönnum til þægðar. Veiðigjald til ríkisins fyrir makríl voru heilir 90 aurar fyrir hvert kg, 71 eyrir fyrir kg af síld og verða 95 aurar fyrir loðnuna á veiðunum í vetur.

Færeyingar héldu uppboð á makrílkvóta í sumar og fengu 1,6 milljarða króna fyrir 20.000 tonn eða 80 kr/kg að meðaltali. Samherji keypti kvóta á uppboðinu og greiddi 100 kr fyrir hvert kg.

Ríkið hefði getað fengið 9 milljarða króna fyrir makrílveiðarnar í stað 140 milljóna kr. samkvæmt forsendum, sem ég geri frekar grein fyrir á heimasíðu minni kristinn.is. Fyrir síldina og loðnuna má ætla að ríkið geti fengið um 7 milljarða króna í sinn hlut, en mun aðeins fá um 590 milljónir króna.

Fyrir mismuninn má reka Landspítalann í hálft ár. Það þyrfti ekki að skera niður starfsemi sjúkrahússins á Húsavík og Ísafirði niður fyrir sársaukamörk. Það þyrfti ekki að loka annarri líknardeild Landspítalans. Það þyrfti ekki að svíða kaupmáttinn af gamla fólkinu og örorkulífeyrisþegum með því að láta bætur ríkisins ekki hækka til jafns við verðlagsbreytingar.

Hvers vegna þarf að hlífa útvegsmönnum í myljandi gróðastarfsemi við því að taka sanngjarnan þátt í rekstri ríkissjóðs á erfiðum tímum? Hvers vegna hlífir ríkisstjórnin frekar útvegsmönnum en öldruðum og sjúkum? Svona eiga jafnaðarmenn ekki að gera.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×