„Ég sá mann í svona jakka niðri í bæ og stoppaði hann, vildi fá að vita hvar hann hefði fengið hann því þetta væri flottasti jakki sem ég hefði séð," segir Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur.
Jakki sem Jón Gnarr hefur klæðst við opinberar athafnir og blaðamannafundi síðan hann tók við lyklavöldum í Ráðhúsinu hefur vakið mikla athygli. Jón upplýsir reyndar strax að um sé að ræða tvo jakka; annar sé svartur og hinn grár.
„Þetta eru jakkar sem eru hannaðir og saumaðir á Íslandi af fyrirtæki sem heitir Private Label. Ég held að það séu einhverjir krakkar sem kaupa upp lager af efni og sauma svona jakka. Það eru því engir tveir jakkar eins," útskýrir Jón en hvítur saumur og marglitir ermahnappar hafa skorið sig sérstaklega úr.
„Þetta er jakki á sparitrúð og ég er svona sparitrúður og er þar af leiðandi í sparitrúðajakka," útskýrir Jón en jakkarnir fást í versluninni Kúltúr og kosta litlar þrjátíu þúsund krónur.
„Ég á líka vetrarfrakka frá þessu sama merki en það skipti mig nokkru máli að þetta væri algjörlega íslensk framleiðsla og saumaskapur. Það er einhver skapandi og gefandi hugsun í jakkanum og það er hreinlega bara gaman að vera í honum," útskýrir Jón, sem hefur komið fram í jakkanum bæði í evrópskum og bandarískum fjölmiðlum en þeir hafa sýnt borgarstjóranum nýja mikinn áhuga.
Haft hefur verið á orði hversu miklum stakkaskiptum fatasmekkur Jóns hafi tekið. Ólíkt því sem flestir kynnu að halda þá segist Jón alltaf hafa verið frekar ákveðinn í fatamálum.
„Ég hef alltaf haft miklar skoðanir á því í hverju ég er," segir Jón. Og ef fólk heldur að jakkinn sé toppurinn á fatavali Jóns Gnarr skjátlast hinum sömu hrapallega. „Ég er nefnilega að láta prjóna á mig alvöru lopapeysu með íslenska anarkímerkinu á."
freyrgigja@frettabladid.is




