Það er ekki eftirsótt hjá NBA-stjörnunum að spila með bandaríska landsliðinu í körfubolta nema Ólympíugull sé í boði. Það sást síðasta sumar er flestir bestu leikmenn deildarinnar gáfu ekki kost á sér fyrir HM.
Nú styttist aftur á móti í næstu Ólympíuleika sem fara fram í London árið 2012 og Kobe Bryant hefur riðið á vaðið og gefið kost á sér í liðið.
Kobe var gestur í útvarpsþætti landsliðsþjálfarans, Mike Krzyzewski, í gær og þá spurði þjálfarinn Kobe út í ÓL í London.
"Ég kem með ef þið viljið hafa mig með. Ég er klár í slaginn og að spila vörn sem og sókn," sagði Kobe sem var í liðinu á ÓL í Peking fyrir tveimur árum.