Leikmenn Boston Celtics eru ekki dauðir úr öllum æðum en Celtics gerði sér lítið fyrir og vann stórsigur á Cleveland, 86-104, og það á heimavelli Cleveland.
Staðan í einvígi liðanna í undanúrslitum Austurdeildar er því 1-1.
Rajon Rondo átti magnaðan leik fyrir Celtics með 13 stig og 19 stoðsendingar sem er persónulegt met. Ray Allen skoraði 22 stig og Kevin Garnett var með 18.
Le Bron James var stigahæstur hjá Cleveland með 24 stig en skoraði aðeins 12 stig í fyrstu þremur leikhlutunum.
Phoenix Suns vann fyrsta leikinn gegn San Antonio Spurs í undanúrslitum Vesturdeildar.
Steve Nash var allt í öllu í liði Suns með 33 stig og þar af 17 í fyrsta leikhluta. Manu Ginobili var stigahæstur hjá Spurs með 27 stig og Tony Parker skoraði 26.
Úrslit næturinnar:
Cleveland-Boston 86-104
Phoenix-San Antonio 111-102