Kvöldstund með Frímanni Gunnarssyni og gestum fór fram í Háskólabíói á miðvikudagskvöld. Gestir voru ánægðir með fjölþjóðlegt grín sem þar var á boðstólum.
Ásamt Frímanni Gunnarssyni komu fram Frank Hvam og Casper Christensen best þekktir úr Klovn-sjónvarpsþáttaröðinni, Jón Gnarr borgarstjóri, Ari Eldjárn úr Mið-Íslandi auk annarra þekktra grínara.
„Mér fannst þetta alveg frábær sýning,“ segir Þrúður Vilhjálmsdóttir, leikkona, sem er bekkjarsystir Gunnars Hanssonar úr Leiklistarskólanum. „Strákarnir í Klovn voru líka skemmtilegir.“
Ragnar Bragason leikstjóri tók í sama streng. „Sýningin var glimrandi fín og kvöldið vel lukkað í heildina. Gunnar fór á kostum.“ Margt var um manninn eins og sjá má af myndunum en einungis var um að ræða eina sýningu. - sf, afb




