Tónlistarmaðurinn Þórir Georg, sem hefur einnig kallað sig My Summer as a Salvation Soldier, kemur fram á sex tónleikum víða um land á næstunni ásamt Bandaríkjamanninum Drekka, eða Michael Anderson. Drekka kemur frá Bloomington í Indiana þar sem hann rekur útgáfuna Bluesanct.
Hann hefur starfað sem Drekka frá árinu 1996, gefið út margar plötur og spilað víða um heim. Þar á meðal hefur hann fimm sinnum spilað hér á landi. Tónlist hans er best lýst sem draumkenndri tilraunatónlist þar sem lítið er notast við hefðbundin hljóðfæri. Næstu tónleikar þeirra verða í Bistrói menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði á laugardag klukkan 22.