Kvikmyndin The Good Heart er framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Myndin, sem er eftir Dag Kára Pétursson, keppir við fjórar aðrar myndir um peningaverðlaun upp á 350 þúsund danskar krónur, eða um sjö milljónir íslenskra króna.
Verðlaunin eru veitt kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og býr yfir miklum listrænum gæðum. Kvikmyndin á einnig að sýna listræna nýsköpun og jafnframt þróa kvikmyndalistina með því að sameina hinar ýmsu hliðar hennar í sannfærandi og heilsteyptu verki.
Hinir myndirnar sem keppa um verðlaunin eru Submarino frá Danmörku, Miesten Vuoro frá Finnlandi, Upperdog frá Noregi og Metropia frá Svíþjóð. Allar tilnefndu myndirnar verða sýndar í Reykjavík á vegum Græna ljóssins, dagana 29. október til 4. nóvember í Háskólabíói. Tilkynnt verður um verðlaunahafa kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 20. október og verðlaunin verða síðan afhent á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík þriðjudaginn 2. nóvember.
The Good Heart kom út í mars síðastliðnum og hlaut góðar viðtökur. Með aðalhlutverkin fara Hollywood-leikararnir Brian Cox og Paul Dano. Myndin fjallar um hjartveikan bareiganda sem tekur ungan, heimilislausan mann undir sinn verndarvæng með það að markmiði að hann taki við rekstri barsins.