Íslenska U-21 árs liðið í knattspyrnu fór á kostum í Kaplakrika í dag er það kjöldróg eitt sterkasta lið Evrópu, Þýskaland, í undankeppni EM. Ísland er komið með átta stiga forskot á Þýskaland í riðlinum og á annað sætið nokkuð víst. Liðið getur enn unnið riðilinn þess utan.
Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins fimm mínútna leik. Jón Guðni Fjóluson átti þá magnaða sendingu upp hægri kantinn á Gylfa Þór Sigurðsson. Gylfi kom boltanum fyrir þar sem Birkir Bjarnason var mættur og afgreiddi boltann smekklega í netið. Frábærlega gert hjá íslenska liðinu.
Nokkuð jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en færin voru Íslendinga. Íslenska liðið fékk tvö góð færi í viðbót sem þeim tókst ekki að nýta.
Eina alvöru hættan sem Þjóðverjar sköpuðu var í uppbótartíma hálfleiksins er Haraldur varði þrumuskot Þjóðverja af löngu færi.
Það tók Þjóðverja ekki langan tíma að jafna leikinn í síðari hálfleik því eftir rúmlega þriggja mínútna leik jafnaði Kevin Grosskreutz leikinn fyrir Þjóvðerja.
Hann fékk þá sendingu á fjærstöng þar sem hann var óvaldaður og skoraði frekar auðveldlega.
Það mark kveikti síðan í íslenska liðinu. Gylfi Þór fiskaði aukaspyrnu af harðfylgi rétt fyrir utan teig. Hann tók spyrnuna sjálfur og skoraði með glæsilegri spyrnu upp í hornið. Algjörlega óverjandi.
Aðeins mínútu síðar fékk Kolbeinn Sigþórsson laglega stungusendingu inn fyrir vörn þýska liðsins. Markvörðurinn kom út á móti og Kolbeinn varð að lyfta boltanum yfir hann.
Það gerði hann listilega vel því boltinn sigldi örugglega yfir markvörðinn og þaðan í netið. 3-1 fyrir Ísland.
Veislunni var ekki lokið því sex mínútum fyrir leikslok komst Alfreð Finnbogason inn í slaka sendingu varnarmanns Þjóðverja sem ætlaði að gefa á markvörðinn sinn. Alfreð þakkaði pent fyrir með því að leika á markvörðinn og skora í tóm markið.
Ótrúlegur sigur íslenska liðsins sem hefur skilið Þjóðverja eftir í riðlinum og á virkilega góðan möguleika á því að komast í lokakeppni EM.
Ísland-Þýskaland 4-1
1-0 Birkir Bjarnason (5.)
1-1 Kevin Grosskreutz (49.)
2-1 Gylfi Þór Sigurðsson (53.)
3-1 Kolbeinn Sigþórsson (54.)
4-1 Alfreð Finnbogason (84.)
Áhorfendur: 3.200.
Dómari: Espen Berntsen, Noregi .
Skot (á mark): 9-18 (8-7)
Varin skot: Haraldur 6 - Sippel 4
Horn: 4-8
Aukaspyrnur fengnar: 9-18
Rangstöður: 0-9
Ísland (4-5-1)
Haraldur Björnsson
Skúli Jón Friðgeirsson
Jón Guðni Fjóluson
Hólmar Örn Eyjólfsson
kristinn Jónsson
Bjarni Þór Viðarsson
Eggert Gunnþór Jónsson
Birkir Bjarnason
(79., Guðlaugur Victor Pálsson)
Gylfi Þór Sigurðsson
Jóhann Berg Guðmundsson
(85., Andrés Már Jóhannesson)
Kolbeinn Sigþórsson
(72., Alfreð Finnbogason)