Alvin Gentry, þjálfari Phoenix Suns, veit vel að Steve Nash vill spila með liðinu þrátt fyrir að vera glíma við meiðsli í nára. Gentry hefur samt látið stjörnuleikmann sinn hvíla í síðustu tveimur leikjum sem hafa báðir tapast.
„Ég held að hann eigi ekki eftir að spila neinn leik á þessu ferðalagi. Það er ekki rétt að nota hann núna og það er betra að bíða þar til að við erum komnir aftur heim," sagði Gentry.
Steve Nash reyndi að spila meiddur á móti Miami en gekk illa og hefur því hvílt á móti Orlando og Charlotte.
„Hann myndi spila ef að ég leyfði honum það. Ég ætla bara ekki að leyfa honum að spila," sagði Gentry.
„Það er ekkert vit í því að vera að pína hann svona snemma á tímabilinu. Hann myndi þá bara draga þessi meiðsli með sér fram yfir hátíðirnar og jafnvel fram yfir stjörnuleikinn. Það mun ekkert hjálpa okkur frekar," sagði Gentry.
Nash er með 19,3 stig og 8,9 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili en Goran Dragic hefur skilað 13,5 stigum og 7,0 stoðsendingum að meðaltali í þessum tveimur leikjum þar sem hann hefur tekið við hlutverki Nash í liðinu.
Körfubolti