Helga Margrét Þorsteinsdóttir var hársbreidd frá því að ná lágmarki fyrir HM í fjölþraut sem fer fram í næsta mánuði. Hún bætti þó eigið Íslandsmet í sjöþraut kvenna og fékk bronsverðlaun á mótinu.
Hún var að keppa á alþjóðlegu fjölþrautarmóti í Kladno í Tékklandi ásamt Einari Daða Lárusson og Ágústu Tryggvadóttur. Helga Margrét og Ágústa kepptu í sjöþraut kvenna og Einar Daði í tugþraut unglinga nítján ára og yngri.
Ekki vantaði nema 22 stig að Helga Margrét næði lágmarkinu en alls hlaut hún 5878 stig sem er nýtt og glæsilegt Íslandsmet í sjöþraut kvenna.
Hún var í öðru sæti og ekki nema 58 stigum á eftir Ólympíumeistaranum, Nataliy Dobrynska frá Úkraínu, eftir fyrri keppnisdaginn. Þá var hún á góðri leið með að ná Íslandsmetinu og ná HM-lágmarkinu.
Hún byrjaði vel í dag er hún stökk 5,78 metra í langstökki. Það var bæting frá árangri hennar í sömu grein er hún bætti Íslandsmetið sitt. Hún hins vegar náði sér ekki á strik í spjótkasinu og ljóst að hún þyrfti að bæta sig talsvert í 800 metra hlaupinu til að ná HM-lágmarkinu. Hún bætti sig um tvær sekúndur en það dugði því miður ekki til.
Engu að síður kom hún fyrst í mark í 800 metra hlaupinu og niðurstaðan glæsilegt Íslandsmet. Metið bætti hún um 157 stig.
Árangur Helgu Margrétar:
100 m grindahlaup: 14,19 sek (952 stig)
Hástökk: 1,73 m (891 stig)
Kúluvarp: 14,09 m (800 stig)
200 m hlaup: 24,77 sek (908 stig)
Fyrri dagur: 3551 stig
Langstökk: 5,78 m (783 stig)
Spjótkast: 40,17 m (671 stig)
800 m hlaup: 2:16,42 mín (873 stig)
Samtals: 5878 stig
