Sóknarmaðurinn snjalli Sævar Þór Gíslason reyndist enn og aftur bjargvættur Selfyssinga þegar liðið vann dýrmætan 1-0 sigur gegn Þór í 1. deildinni á Selfossi í dag.
Sigurmark Sævars Þórs kom á 39. mínútu en Þórsarar létu heimamenn hafa vel fyrir stigunum þremur.
Selfoss er komið með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.
Þá vann Fjarðabyggð góðan 1-3 sigur gegn Víkingi Reykjavík í víkinn. Jóhann Ragnar Benediktsson og Stefán Þór Eysteinsson komu gestunum í 0-2 í fyrri hálfleik.
Högni Helgason bætti svo við þriðja marki Fjarðabyggðar um miðjan seinni hálfleik áður en Grétar Ali Khan minnkaði muninn á lokamínútu venjulegs leiktíma.