WBA-léttveltivigtarmeistarinn í hnefaleikum Amir Khan hefur nánast útilokað að hann muni mæta nýkrýnda WBO-veltivigtarmeistaranum Manny „Pac-Man" Pacquiao í hringnum.
Tvímenningarnir eru báðir þjálfaðir af Freddie Roach og æfa reglulega saman og Khan telur því að öllu óbreyttum muni þeir aldrei mætast í alvöru bardaga.
„Ég og Manny æfum saman og höfum sama þjálfarann og ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir honum. Það mikla virðingu að ég gæti varla hugsað mér að mæta honum í hringnum.
Ég hugsa líka að þegar ég kemst á þann stall á mínum ferli til þess að vera tilbúinn að mæta honum þá verður Manny örugglega hættur eða við það að hætta," segir hinn 22 ára gamli Khan en Pacquiao er þrítugur.