Innlent

Aðildarviðræður fyrsta mál á dagskrá hjá Samfylkingunni

Árni Páll Árnason segir að aðildarviðræður við ESB séu brýnasta málið eftir kosningar. Mynd/ Anton Brink.
Árni Páll Árnason segir að aðildarviðræður við ESB séu brýnasta málið eftir kosningar. Mynd/ Anton Brink.
Aðildarviðræður við Evrópusambandið er fyrsta mál á dagskrá og brýnasta verkefnið framundan. Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í kosningaumræðum Stöðvar 2 nú í kvöld. Árni Páll sagði að Samfylkingin myndi leggja höfuðáherslu á Evrópusambandsaðild í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum. Þá sagði Árni Páll að það stæði ekki til að afsala sér yfirráðum yfir náttúruauðlindum Íslendinga.

Líklegt er að Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð muni reyna stjórnarmyndunarviðræður, en skoðanakannanir á fylgi benda til að myndun meirihluta þessa tveggja stjórnmálaflokka gæti orðið að veruleika eftir kosningar. Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og menntamálaráðherra sagði að enginn gæti sett ófrávíkjanlega kröfu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hún sagði að VG hefði sett mikinn fyrirvara við inngöngu í Evrópusambandið. Benti hún á að lýðræðishalli væri í Evrópusambandinu og að sjávarútvegsstefna og landbúnaðarstefna Evrópusambandsins myndi ekki gera það fýsilegan kost fyrir Íslendinga. En Katrín sagði að ef Íslendingar myndu sækja um í sambandinu ætti ekki að gera það í einhverjum asa heldur að vel yfirlögðu ráði.

Illugi Gunnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að flokkurinn væri á móti aðild og benti á ályktun landsfundar flokksins máli sínu til stuðnings. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að flokkurinn vildi sækja um aðild með ákveðnum skilyrðum, einkum þeim að tekið yrði tillit til sjónarmiða Íslendinga í sjávarútvegsmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×