Akureyrarliðin KA og Þór töpuðu bæði leikjum sínum í 1. deild karla, KA á heimavelli á móti Leikni og Þór á útivelli á móti ÍR.
Árni Freyr Guðnason tryggði ÍR 1-0 sigur á Þór með marki á 25. mínútu en Þór var búið að vinna fjóra leiki í röð. ÍR komst með sigrinum upp fyrir Þór í töflunni.
KA tapaði sínum fjórða leik í síðustu fimm leikjum þegar liðið lá 0-2 á heimavelli á móti Leikni. Helgi Pjetur Jóhannsson og Kristján Páll Jónsson skoruðu mörk Leiknismanna í leiknum sitt hvorum megin við hálfleikinn.
Leiknismenn náðu þar með í sex stig í leikjum sínum á Akureyri í sumar en fyrir þetta sumar hafði Leiknir aldrei unnið deildarleik í höfuðstað Norðurlands.