Haukakonan Slavica Dimovska, leikmaður deildarmeistara Hauka, var nú rétt áðan valin besti leikmaður seinni hluta Iceland Express deildar kvenna í körfubolta. Þjálfari hennar hjá Haukum, Yngvi Gunnlaugsson, var valinn besti þjálfarinn.
Slavica Dimovska lék frábærlega með Haukaliðinu sem vann sjö fyrstu deildarleikina í seinni hlutanum og tryggði sér með því deildarmeistaratitilinn. Slavica var með 20,9 stig, 4,8 stoðsendingar og 3,9 stolna bolta að meðaltali í seinni hlutanum en hún hitti þá úr 43,4 prósent af 53 þriggja stiga skotum sínum.
Keflavík átti flesta leikmenn í úrvalsliðinu eða tvo. Þrír leikmanna fimm manna úrvalsliðsins voru einnig valdar í liðið fyrir fyrri hlutann. Það eru Slavica, Birna Valgarðsdóttir úr Keflavík og Signý Hermannsdóttir úr Val. Pálína Gunnlaugsdóttir úr Keflavík og Sigrún Ámundadóttir úr KR voru nú valdar í fyrsta sinn í úrvalslið í vetur.
KR-ingurinn Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var valin dugnaðarforkurinn en þau verðlaun er fyrir þann leikmann sem leggur mikið að mörkum til síns liðs þó að ekki teljist það allt í tölfræðinn. Gróa er frábær varnarmaður og alltaf á eftir öllum lausum boltum út um allan völl.
Verðlaun fyrir seinni hluta Iceland Express deildar kvenna:
Úrvalslið
Slavica Dimovska, Haukum
Pálína Gunnlaugsdóttir, Keflavík
Birna Valgarðsdótir, Keflavík
Sigrún Ámundadóttir, KR
Signý Hermannsdóttir, Val
Besti leikmaðurinn:
Slavica Dimovska, Haukum
Besti þjálfarinn:
Yngvi Gunnlaugsson, Haukum
Dugnaðarforkurinn:
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, KR