Valskonan Signý Hermannsdóttir náði því að verja yfir 100 skot annað árið í röð þegar hún varð sex skot frá Grindvíkingum í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna í gær. Valur vann 79-59 sigur og Signý var með með 28 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum auk þess að verja umrædd sex skot.
Signý varði alls 104 skot í Iceland Express deildinni í vetur eða einu minna en hún varði í fyrra. Enginn annar leikmaður í efstu deild kvenna hefur náð því að verja meira en 72 skot á einu tímabili frá því að farið að taka saman varin skot í deildinni árið 1994.
Yfirburðir Signýjar voru mjög miklir hvað varðar varin skot því hún varði 64 fleiri skot en næsti leikmaður sem var Fjölnisstúlkan Bergdís Ragnarsdóttir. Bergdís varði 40 skot í 20 leikjum eða 2,0 að meðaltali í leik.
Signý náði að verja yfir tíu skot í þremur leikjum og þá var þetta í tíunda sinn í vetur sem hún nær að verja 6 skot eða fleiri í einum leik. Signý náði því einnig að verja að minnsta kosti eitt skot í öllum 18 leikjunum sem hún spilaði.
Signý hefur alls varið 519 skot á ferli sínum í efstu deild sem er meira en nokkur annar leikmaður. Hún er einnig sá leikmaður sem hefur tekið flest fráköst í efstu deild kvenna frá því að farið var að taka saman tölfræði í deildinni.