Innlent

Hægrahrunið hófst í júní á síðasta ári

Vinstriflokkarnir hafa aldrei mælst með meira fylgi en nú. Í könnunum Fréttablaðsins frá því í október hefur samanlagt fylgi vinstriflokkanna ekki farið undir fimmtíu prósent en að jafnaði verið nær sextíu prósentum. Í síðustu tveimur könnunum blaðsins, sem gerðar voru í apríl, mældist samanlagt fylgi vinstriflokkanna svo yfir sextíu prósentum.

Að sama skapi hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki mælst minna. Í könnunum Fréttablaðsins mældist Sjálfstæðisflokkurinn rétt yfir 25 prósentum í maí 2004. Annars hefur fylgi flokksins verið að mælast um 35 til 40 prósent.

Ef úrslit kosninga frá 1963 til 2007 eru skoðuð var samanlagt fylgi hægriflokka minnst 1978 þegar 32,7 prósent kusu Sjálfstæðisflokkinn. Það ár var mikill kosningasigur vinstriflokka með samanlagt fylgi þeirra tæp 45 prósent. Líklegt er að fylgi vinstriflokkanna í kosningunum nú verði mun hærra. Í síðustu könnun Fréttablaðsins var samanlagt fylgi vinstriflokkanna tæp 63 prósent.

Oft er vísað til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki nema 27,2 prósent atkvæða í kosningunum 1987. Í síðustu könnun Fréttablaðsins var Sjálfstæðisflokkurinn á svipuðu róli, með rúmlega 27 prósenta fylgi. Munurinn á úrslitunum 1987 og stöðu flokksins nú er að í kosningunum 1987 fékk Borgaraflokkurinn 10,9 prósent atkvæða. Hægrafylgið það ár var því rúm 38 prósent.

Landslagið í stjórnmálum nú, hvernig kjósendur skiptast til hægri og vinstri, er því allt annað en áður hefur þekkst. Ekki einungis er hægrafylgið minna en það hefur áður verið, heldur er miðjufylgið einnig mun minna.

Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins hófst í júní á síðasta ári. Meðal karla og íbúa á landsbyggðinni fer fylgi Sjálfstæðisflokksins að dragast saman frá og með júní. Meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins hefst niðursveiflan í október. Konur hafa ávallt verið mun líklegri til að styðja vinstriflokkana og því er munurinn minni meðal þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×