Grindavíkurkonur unnu tíu stiga sigur á bikarmeisturum KR, 70-60, í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna í kvöld og jöfnuðu þar með metin í einvíginu. Oddaleikurinn um sæti í undanúrslitunum verður í DHL-Höllinni á sunnudaginn.
Grindavík skoraði ekki fyrstu fimm mínútur leiksins en var samt 14-9 yfir eftir fyrsta leikhluta. Grindavík hélt frumkvæðinu eftir það og var 27-21 yfir í hálfleik.
Grindavíkurliðið lagði grunninn að sigrinum með því að skora ellefu síðustu stig þriðja leikhluta og komast sextán stigum yfir, 48-32.
Grindavík komst mest 19 stigum yfir í lokaleikhlutanum, 62-43, en KR náði að minnka muninn í lokin.
Petrúnella Skúladóttir skoraði 16 stig fyrir Grindavík og Jovana Lilja Stefánsdóttir var með 12 stig. Ólöf Helga Pálsdóttir tók 12 fráköst auk þess að skora 9 stig.
Hjá KR voru þær Hildur Sigurðardóttir og Helga Einarsdóttir stigahæstar með 15 stig hvor.