Lokaleikur 7. umferðar í Iceland Express deild kvenna fór fram í kvöld er KR vann stóran sigur á Fjölni, 80-47, á heimavelli.
Snemma var ljóst í hvað stefndi þar sem KR komst í 20-0 forystu en Fjölnir skoraði ekki sitt fyrsta stig í leiknum fyrr en nítján sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta. Fjölnir skoraði bara þetta eina stig í leikhlutanum.
Staðan í hálfleik var 41-15 og yfirburðir liðsins héldu áfram það sem eftir lifði leiks.
Guðrún Ósk Ámundardóttir skoraði 25 stig fyrir KR og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir tíu. Hjá Fjölni var Ashley Bowman stigahæst með fjórtán stig en Bergdís Ragnarsdóttir kom næst með ellefu.
KR er í fjórða sæti deildarinnar með átta stig en Fjölnir er í næstneðsta sætinu með tvö stig, rétt eins og botnlið Snæfells.