"Við vorum miklu betri, þetta var aldrei spurning," sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við Vísi eftir að hans menn í KR unnu 93-72 stórsigur á Keflavík í kvöld.
KR-ingar voru sjóðheitir í langskotunum í fyrri hálfleik þar sem þeir lögðu grunninn að sigrinum.
"Við vorum að fá fín skot bæði á móti svæðisvörninni og maður á mann vörninni og vorum að hitta gríðarlega vel. Varnarleikurinn var heilt yfir allt í lagi en það er allt í lagi, það kemur. Við ætlum að vinna titilinn og þá verðum við að spila hörkuvörn," sagði Jón Arnór.
Jón gat ekki beitt sér að fullu í sigrinum á ÍR í fyrstu umferðinni vegna meiðsla í baki, en það virtist ekki há honum í kvöld.
"Bakið var mjög fínt, þetta var bara stirðleiki. Ég fór í nudd og til kírópraktórs og nú finn ég ekkert fyrir þessu," sagði landsliðsmaðurinn.