Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari var nokkuð brattur þegar Vísir náði tali af honum nú síðdegis. Hann var þá nýkominn úr aðgerð eftir að hafa slitið hásin í gær.
Við spurðum þjálfarann út í mál Eiðs Smára Guðjohnsen, en ólíklegt þykir að hann geti spilað með íslenska landsliðinu gegn Wales á miðvikudaginn.
"Eiður er auðvitað okkar besti knattspyrnumaður í augnablikinu og því væri gott að fá hann í leikinn. Ég lifi enn í voninni um að fá hann þó við höfum auðvitað reiknað með því lengi að hann kæmi ekki þar sem ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða," sagði Ólafur í samtali við Vísi.
Hann segist vonast til að fá botn í málið í kvöld eða á morgun. "Þeir hafa samt auðvitað leyfi til að segja nei við okkur. Það er líka verið að spila hérna heima um helgina og í Noregi, þannig að forsendur geta þess vegna verið orðnar allt aðrar með liðið á mánudaginn. Menn geta lent í meiðslum," sagði Ólafur.
Ólafur var nýkominn úr aðgerð þegar Vísir náði tali af honum, en hann segir aðgerðina hafa heppnast ágætlega. "Ég vona bara að ég verði sæmilega heill á miðvikudaginn og leikmennirnir líka," sagði Ólafur að lokum.