Körfubolti

Tíu sigrar í röð hjá Lakers

Jordan Farmar hefur leikið eins og engill fyrir Lakers að undanförnu
Jordan Farmar hefur leikið eins og engill fyrir Lakers að undanförnu NordcPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LA Lakers vann tíunda leik sinn í röð, San Antonio skellti Dallas í Texaseinvíginu og Devin Harris átti frábæra frumraun með New Jersey Nets í sigri liðsins á Milwaukee.

Tim Duncan var í sérflokki hjá San Antonio í 97-94 sigri liðsins á Dallas á heimavelli, en þetta var sjöundi sigur meistaranna í röð. Duncan skoraði 31 stig og hirti 15 fráköst og Manu Ginobili skoraði 17 stig. Dirk Nowitzki var stigahæstur hjá Dallas með 28 stig, en flest þeirra komu af vítalínunni þar sem hann setti niður 17 af 21 víti sínu. Brandon Bass og Josh Howard skoruðu 16 stig hvor.

New Jersey lagði Milwaukee 120-106 þar sem leikstjórnandinn Devin Harris spilaði sinn fyrsta leik með New Jersey eftir að hafa komið frá Dallas í skiptum fyrir Jason Kidd. Harris hitti úr fyrstu sex skotum sínum í leiknum og skoraði 21 stig. Michael Redd skoraði 33 stig fyrir Milwaukee og Andrew Bogut skoraði 22 stig og hirti 15 fráköst.

Loks vann LA Lakers 10. leikinn í röð þegar liðið skellti slökum Miami-mönnum heima 106-86. Jordan Farmar skoraði 24 stig fyrir Lakers, Kobe Bryant 21 stig og þeir Pau Gasol og Lamar Odom voru báðir með 13 stig og 11 fráköst. Dwyane Wade skoraði 18 stig fyrir Miami.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×