Keflavíkurstúlkur smelltu sér í kvöld upp að hlið Grindavíkur og KR á toppi Iceland Express deildarinnar með stórsigri á grönnum sínum í Grindavík 95-72. KR lagði Fjölni á útivelli 68-58.
Eins og svo oft áður var það TaKesha Watson sem var atkvæðamest í liði Keflavíkur í kvöld og skoraði hún 28 stig, gaf 12 stoðsendingar og stal 6 boltum. Susanne Biemer skoraði 25 stig og hirti 8 fráköst og Margrét Sturludóttir átti líka skínandi leik og skoraði 19 stig og hirti 15 fráköst.
Tiffany Robertson var allt í öllu í liði Grindavíkur í kvöld með 28 stig og 16 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir skoraði 12 stig og gaf 7 stoðsendingar og Pétrúnella Skúladóttir og Jovana Stefánsdóttir skoruðu 11 stig hvor.
Leikur KR og Fjölnis var í jafnvægi þangað til í fjórða leikhlutanum en hann vann KR 24-9 og tryggði sér sigurinn 68-58.
Monique Martin skoraði 19 stig, hirti 14 fráköst og stal 8 boltum hjá KR og Hildur Sigurðardóttir kom næst með 12 stig og 9 fráköst. Hjá Fjölni var Slavica Dimovska stigahæst með 19 stig og Gréta Grétarsdóttir skoraði 15 stig og hirti 12 fráköst.