Körfubolti

KR skellti Íslandsmeisturunum

Hildur Sigurðardóttir skoraði 27 stig fyrir KR í dag
Hildur Sigurðardóttir skoraði 27 stig fyrir KR í dag Mynd/Arnþór Birgisson

Þrír leikir voru á dagskrá í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í dag. KR-stúlkur lögðu Íslandsmeistara Hauka 80-74 í Hafnarfirði þrátt fyrir að vera án stórskyttunnar Monique Martin.

Hildur Sigurðardóttir var stigahæsti í liði KR með 27 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar, en hitti reyndar illa úr skotum sínum í leiknum. Sigrún Ámundadóttir skoraði 15 stig og hirti 14 fráköst og Guðrún Þorsteinsdóttir skoraði 14 stig.

Hjá Haukum var Kristrún Sigurjónsdóttir stigahæst með 17 stig, Kiera Hardy skoraði 16 stig og gaf 7 stoðsendingar, en hún hitti aðeins úr 4 af 13 þristum sínum og tapaði 8 boltum. Unnur Jónsdóttir skoraði 15 stig og hirti 10 fráköst.

Grindavík vann öruggan sigur á Hamri 96-79 og Keflavík burstaði Fjölni 109-77 á heimavelli. Keflavík er í efsta sæti deildarinnar með 22 stig, KR og Grindavík koma næst með 20 stig og Íslandsmeistarar Hauka hafa 16 stig í fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×