Bresku hnefaleikararnir Ricky Hatton og Lennox Lewis hafa skorað á Walesverjann Joe Calzaghe að leggja hanskana á hilluna eftir öruggan sigur hans á Roy Jones jr í New York um helgina.
Hinn 36 ára gamli Calzaghe hefur þar með unnið sigur í öllum 46 bardögum sínum á ferlinum og Hatton skorar á hann að láta gott heita.
"Það er ekkert meira sem Joe getur gert. Það koma alltaf nýir áskorendur, en Joe hefur sigrað Bernard Hopkins og Roy Jones og unnið sigra í Madison Square Garden og Las Vegas. Það er ekki hægt að enda ferilinn betur," sagði Hatton.
Calzaghe hefur líka látið í það skína að þetta hafi verið síðasti bardagi hans á ferlinum.
"Ég hef verið ósigraður í 18 ár og þetta er líklega síðasti bardaginn minn. Ég ætla ekki að gefa út neinar yfirlýsingar núna, en ég á frekar von á því að hætta núna. Nú ætla ég að taka mér gott frí með fjölskyldunni og fara yfir stöðuna," sagði Calzaghe.
Fyrrum þungaviktarmeistarinn Lennox Lewis hefur einnig skorað á Calzaghe að hætta núna. "Hann hefur unnið alla sem vert er að vinna og hefur ekkert meira að sanna. Ég held að hann ætti að hætta," sagði Lewis.