KR varð í dag bikarmeistari karla í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Fjölni í heldur bragðdaufum úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Hægt var að fylgjast með leiknum á Miðstöð Boltavaktarinnar og með því að smella á viðkomandi hlekk. Hlekkurinn er einnig á forsíðu íþróttavefs Vísis. Þar má lesa nánar um gang leiksins.
Kristján Hauksson Fjölnismaður varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok leiksins eftir að Óskar Örn Hauksson, KR-ingur, átti skot að marki. Markið kom á 89. mínútu leiksins.
Sigurinn verður að teljast sanngjarn þar sem KR-ingar voru sterkari aðilinn í síðari hálfleikur. Fyrri hálfleikurinn var meira í járnum og fátt sem ekkert markvert sem gerðist þá.
KR óx ásmegin eftir því sem á leið síðari hálfleikinn án þess þó að skapa sér mörg hættuleg færi.
KR varð í dag bikarmeistari í ellefta sinn í sögu félagsins en Fjölnir hefur nú tapað í úrslitaleik bikarkeppninnar tvö ár í röð.
Viðtal og myndir birtast hér á eftir skamma stund.