Erlent

Fritzl líkt við Frankenstein

Josef Fritzl hafði unun af því að drottna yfir lífi dóttur sinnar og barna þeirra.
Josef Fritzl hafði unun af því að drottna yfir lífi dóttur sinnar og barna þeirra.

Austurrískir geðlæknar hafa nú hafist handa við að reyna að greina hvað knúði skrímslið frá Amstetten, Josef Fritzl, áfram í brjálsemi sinni. Geðlæknarnir ræða nú við mannin, sem lokaði dóttur sína ofan í kjallara í 24 ár og gat með henni sjö börn, og reyna að skera úr um hvort hann sé sakhæfur eða hvort ekki taki því að rétta yfir honum sökum brjálseminnar en lögfræðingur hans heldur því fram.

Geðlæknirinn Christian Ludke sem rætt hefur verið Fritzl þvertekur hins vegar fyrir að hann sé ósakhæfur. „Glæpahneigð mannsins er ótrúleg. Hann er nákaldur í fasi og reynir enn valdatafl. Okkar eini kostur er að halda honum fjarri samfélaginu," segir Ludke.

Breska blaðið The Sun hefur eftir Ludke að helst megi líkja Fritzl við skáldsagnapersónu Mary Shelley, sjálfan Dr. Frankenstein sem skóp skrímsli sem hann hélt hann réði við. „Fritzl fékk fróun í því að drottna yfir lífi og dauða dóttur sinnar. Hann ánetjaðist því að hafa líf hennar algjörlega á sínu valdi. Hann var eins og Dr. Frankenstein."

Ludke hlær líka að tilraunum verjanda Fritzl til þess að draga úr glæpnum með því að benda á að Fritzl hafi orðið fyrir harðræði í æsku, þegar Nasistar réðu lögum og lofum í Austurríki og víðar. „Hann vill bara hlífa sjálfum sér og kenna öðrum um."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×