Kjósendur á kjörskrá vegna alþingiskosninganna á laugardag eru 221.368 og hefur þeim fjölgað um rúmlega tíu þúsund frá kosningunum fyrir fjórum árum.
570 fleiri konur eru á kjörskrá en karlar.
Flestir kjósendur eru í Suðvesturkjördæmi, rúmlega 54 þúsund, en fæstir í Norðvesturkjördæmi, rúmlega 21 þúsund.
Flestir kjósendur eru að baki hverju þingsæti í Suðvesturkjördæmi, rúmlega 4.500, en fæstir í Norðvesturkjördæmi, rúmlega 2.300.
Í síðustu kosningum greiddu 185.392 atkvæði; tæp 88 prósent þeirra sem voru á kjörskrá.
Kjósendur með lögheimili erlendis eru tæplega 8.800, fjögur prósent kjósendatölunnar. Rúmlega sautján þúsund fá, vegna aldurs, að kjósa nú í fyrsta sinn til Alþingis.