Franski framherjinn Boris Diaw hefur samþykkt að skrifa undir fimm ára framlengingu á samningi sínum við NBA lið Phoenix Suns og sagt er að samningurinn færi honum um 45 milljónir dollara í aðra hönd.
Diaw var sá leikmaður sem tók mestum framförum í NBA á síðustu leiktíð og er einn fjölhæfasti leikmaður deildarinnar. Hann er 24 ára gamall og skoraði rúm 13 stig að meðaltali, hirti tæp 7 fráköst og gaf 6,2 stoðsendingar. Hann náði fjórum sinnum þrennu í deildarkeppninni á síðustu leiktíð og bætti tölfræði sína verulega í úrslitakeppninni..