Erlent

Heimssýningin í Japan að hefjast

Umhverfisvernd og nýjustu græjur eru í fyrirrúmi á heimssýningunni í Japan, sem svipta á hulunni af eftir viku. Heimssýningin verður opnuð 25. þessa mánaðar en blaðamenn fengu í dag nasasjón af því sem boðið verður upp á. Sýningin er í Aichi í Japan og þarf verður ekki síst lögð áhersla á vélmenni og umhverfisvænar tækninýjungar ýmiss konar. Til að mynda er þak sýningarsvæðisins klætt grasi til að einangra svæðið og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hundrað og tuttugu þjóðir kynna sig á sýningunni og Norðurlandaþjóðirnar fimm, Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland, tóku höndum saman um einn skála. Þar á að sýna hvernig hönnun og tækni gera Norðurlandaþjóðunum kleift að svara kröfum nútímans og halda sérstöðu sinni. Einnig á að gefa sýningargestum innsýn í daglegt líf okkar Norðurlandabúa. Vonast er til að fimmtán milljónir manna sæki sýninguna í Aichi heim en hún stendur í hálft ár, eða til septemberloka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×