
Íþróttir

Shevchenko vill koma aftur til Milan
Silvio Berlusconi, forseti ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, segir að framherjinn Andriy Shevchenko vilji snúa aftur í raðir liðsins, en hann gekk sem kunnugt er í raðir Englandsmeistara Chelsea í sumar og hefur ekki náð að stimpla sig inn þar á bæ.

Auðveldur sigur Reading á Tottenham
Íslendingalið Reading sýndi enn og aftur að liðið er komið til að vera í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið skellti Tottenham 3-1 á heimavelli sínum. Reading situr nú í 11. sæti deildarinnar og fór upp fyrir Lundúnaliðið með sigrinum í dag.

Klitschko rotaði Brock
Wladimir Klitschko varði í nótt IBF heimsmeistaratitil sinn í þungavigt þegar hann rotaði Bandaríkjamanninn Calvin Brock í sjöundu lotu bardaga þeirra í Madison Square Garden í New York. Bardaginn var sýndur beint á Sýn.

57 stig Michael Redd dugðu skammt
Skotbakvörðurinn Michael Redd skráði nafn sitt í sögubækurnar hjá liði sínu Milwaukee Bucks í nótt þegar hann sló félagsmet Kareem Abdul-Jabbar með því að skora 57 stig gegn Utah Jazz. Það dugði þó ekki til og gestirnir frá Utah höfðu 113-111 sigur og urðu fyrsta liðið til að vinna 6 leiki í vetur.

Neville dregur sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla
Bakvörðurinn Gary Neville getur ekki spilað með enska landsliðinu í vináttuleiknum gegn Hollendingum á miðvikudaginn eftir að þrálát kálfameiðsli hans tóku sig upp að nýju í leik Manchester United og Blackburn í kvöld. Þetta þykir ýta undir það að nýliðinn Micah Richards hjá Manchester City gæti fengið sitt fyrsta tækifæri með landsliðinu.

Totti tryggði Roma sigur á Milan
Francesco Totti var hetja Roma í kvöld þegar hann skoraði bæði mörk Roma í dramatískum 2-1 útisigri liðsins á AC Milan. Fyrir vikið er Roma aðeins einu stigi á eftir toppliðunum Inter og Palermo. Á sama tíma vann Fiorentina 3-1 sigur á Atalanta.

Valencia byggir nýjan leikvang
Spænska knattspyrnufélagið Valencia hefur nú kynnt formlega áform sín um að reisa nýjan knattspyrnuleikvang í borginni sem ætlað verður að leysa gamla Mestalla leikvanginn af hólmi.

Chicago - Indiana í beinni
Það má búast við hörkuleik í nótt þegar Chicago Bulls og Indiana Pacers eigast við í NBA deildinni í leik sem sýndur verður beint á NBA TV sjónvarpssstöðinni klukkan 1:30. Chicago hefur ekki náð að fylgja eftir stórsigri sínum á Miami í fyrsta leik tímabilsins og þarf að eiga góðan leik til að leggja Indiana sem hefur unnið þrjá af fjórum síðustu leikjum sínum.

Held að United verði við toppinn
Mark Hughes sagðist ekki hafa neitt upp á leik sinna manna að klaga eftir 1-0 ósigur gegn fyrrum félögum sínum í Manchester United í dag. Hann segir lið United mjög líklegt til afreka í vetur.

Tap hjá Alfreð og Viggó
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar og Viggós Sigurðssonar töpuðu leikjum sínum í Meistaradeildinni í handbolta í dag, en það kom ekki að sök því Flensburg og Gummersbach eru bæði komin áfram í riðlum sínum í keppninni.

Bayern lagði Leverkusen í æsilegum leik
Þýskalandsmeistarar Bayern Munchen voru hætt komnir í viðureign sinni við Leverkusen í úrvalsdeildinni í dag, en eftir að hafa lent undir 2-1 þegar 10 mínútur lifðu leiks, náðu meistararnir að snúa leiknum sér í hag og vinna 3-2 á útivelli.

Klitschko mætir Calvin Brock
Sjónvarpsstöðin Sýn verður í kvöld með beina útsendingu frá bardaga Wladimir Klitschko og Calvin Brock, þar sem Úkraínumaðurinn ver heimsmeistaratitil sinn hjá IBF sambandinu. Bardaginn fer fram í Madison Square Garden í New York og auk þungavigtarbardagans verður m.a. Laila Ali í sviðsljósinu, en hún er dóttir Muhammad Ali.

Sjötti sigur Man Utd í röð
Manchester United endurheimti þriggja stiga forskot sitt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í dag með góðum 1-0 útisigri á Blackburn í lokaleik dagsins. Louis Saha skoraði sigurmark United um miðjan síðari hálfleikinn eftir góða sendingu frá Ryan Giggs, en þetta var fyrsti sigur United á Ewood Park í átta ár.

Drogba er besti framherji í heimi
Jose Mourinho hrósaði framherja sínum Didier Drogba í hástert í dag þegar hann skoraði þrennu og lagði upp eitt mark í 4-0 sigri Chelsea á Watford í ensku úrvalsdeildinni. Mourinho segir engan framherja í heiminum vera að spila betur en Drogba þessa dagana.

Fram lá fyrir Sandefjord
Framarar eru úr leik í Evrópukeppninni í handbolta eftir 31-28 tap fyrir norsku meisturunum í Sandefjord á heimavelli sínum í dag. Jóhann Gunnar Einarsson og Sigfús Sigfússon skoruðu 5 mörk hvor fyrir Fram, sem þýðir að Fram vermir botnsætið í riðli sínum án sigurs.

Valsmenn aftur á toppinn
Einn leikur fór fram í DHL deild karla í handbolta í dag. Valsmenn skelltu sér aftur á topp deildarinnar með 31-25 sigri á ÍR. Markús Máni Michaelsson var markahæstur hjá Val með 7 mörk en Davíð Georgsson skoraði 8 fyrir botnlið ÍR.
Jafnt í hálfleik
Staðan í leik Fram og Sandefjord í Meistaradeildinni í handbolta er jöfn 12-12 þegar flautað hefur verið til leikhlés. Markvörður norska liðsins hefur reynst Frömurum erfiður í fyrri hálfleiknum. Leikurinn er sýndur beint á Sýn.

Drogba með þrennu í sigri Chelsea
Englandsmeistarar Chelsea tóku Watford í bakaríið 4-0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem framherjinn Didier Drogba fór á kostum og skoraði þrennu.

Tveir leikir í beinni í kvöld
Tveir leikir verða sýndir beint úr spænska boltanum á Sýn í kvöld, en sjónvarpsstöðin er með sannkallaða íþróttaveislu í beinum útsendingum í dag og nótt. Leikur Atletico Madrid og Villarreal verður sýndur klukkan 18:50 og klukkan 20:50 tekur Valencia á móti Atletico Bilbao.

Fram - Sandefjord í beinni á Sýn
Síðari leikur Fram og Sandefjord í Meistaradeild Evrópu í handbolta verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan 16:50 í dag. Fram bíður erfitt verkefni því norska liðið vann fyrri leikinn með tíu mörkum og leikurinn í dag ræður úrslitum um það hvort liðið kemst áfram upp úr riðlinum.

Valsstúlkur á toppnum
Kvennalið Vals hefur náð þriggja stiga forystu á toppi DHL deildarinnar eftir öruggan 28-20 sigur á Fram í Laugardalshöllinni í dag. Haukar lögðu Akureyri á útivelli 27-21. Valur hefur þriggja stiga forskot á Gróttu á toppi deildarinnar.

Drogba í stuði
Nú er kominn hálfleikur í leikjunum sex sem standa yfir í ensku úrvalsdeildinni. Didier Drogba er búinn að skora bæði mörk Chelsea sem hefur yfir 2-0 gegn Watford á heimavelli. Wigan hefur yfir gegn Charlton 2-0 og Aston Villa er yfir 1-0 á Goodison Park gegn Everton. Markaskorara í dag má sjá á Boltavaktinni hér á íþróttasíðunni.

Portland og Atlanta koma á óvart
Tíu leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og ekki er hægt að segja annað en að deildarkeppnin fari forvitnilega af stað, því á meðan nokkur af bestu liðum deildarinnar hafa átt erfitt uppdráttar í byrjun - eru minni spámenn á borð við Portland og Atlanta að koma á óvart.

Liverpool mætir Arsenal
Í dag var dregið í 8-liða úrslit enska deildarbikarsins í knattspyrnu. Þar ber hæst að Liverpool fékk heimaleik gegn Arsenal, Newcastle mætir Chelsea, Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton taka á móti Wycombe og þá tekur Tottenham á móti liði Southend í 1. deildinni sem óvænt sló Manchester United úr keppni á dögunum.

Auðunn Jónsson heimsmeistari
Kópavogströllið Auðunn Jónsson varð í dag heimsmeistari í kraftlyftingum í 125 kg flokki þegar hann lyfti samanlagt 1040 kg á heimsmeistaramótinu í Stavangri í Noregi. Auðunn lyfti 20 kg meira en næsti maður í samanlögðu og tók hann 395 kg á hnébeygju, 280 á bekknum og 365 kg í réttstöðulyftu.

Jafnt hjá City og Newcastle
Manchester City og Newcastle skildu jöfn 0-0 í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað, en gestirnir frá Newcastle sýndu ekki lífsmark fyrr en á lokamínutum leiksins, þar sem þeir voru klaufar að tryggja sér ekki sigurinn.

Páll Axel stigahæsti Íslendingurinn
Tim Ellis hjá Keflavík er stigahæsti leikmaðurinn í úrvalsdeild karla í körfubolta þegar leiknar hafa verið sex umferðir, en hann skorar að meðaltali 29,3 stig í leik. Páll Axel Vilbergsson hjá Grindavík er stigahæsti íslenski leikmaðurinn í deildinni með 21,7 stig í leik.

Scholes og Ferguson bestir í október
Sir Alex Ferguson og Paul Scholes hjá Manchester United voru í dag útnefndir knattspyrnustjóri og leikmaður októbermánaðar í ensku úrvalsdeildinni. United vann alla fjóra leiki sína í mánuðinum og hefur þriggja stiga forskot á Chelsea á toppnum. Þetta er í 18 skipti sem Ferguson fær þessi verðlaun á ferlinum.

New Jersey - Miami í beinni á Sýn í kvöld
Sjónvarpsstöðin Sýn heldur í kvöld áfram að sýna beint frá NBA körfuboltanum en klukkan eitt eftir miðnætti verður á dagskrá leikur New Jersey Nets og meistara Miami Heat.

Vill verða alvöru heimsmeistari
Úkraínumaðurinn Wladimir Klitschko segir að enn sé nokkuð í það að hann geti kallað sig alvöru heimsmeistara í þungavigt, en hann mætir Bandaríkjamanninum Calvin Brock í beinni útsendingu á Sýn annað kvöld.