
Fréttir

Uppboð á tollkvótum hækkar matarverð
Ákvörðun stjórnvalda um uppboð á innflutningskvótum á kjöti og ostum stuðlar að hærra vöruverði og er andstæð markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka matarverð. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Samtökin vildu að tollkvótum yrði úthlutað án uppboðs.

Minni harka í mótmælunum
Til nokkurra átaka kom milli mótmælenda og lögreglu á Norðurbrú í Kaupmannahöfn í nótt en ekki jafn alvarlegra og liðnar nætur. Lögregla var fjölmenn á götum borgarinnar og talið að það hafi komið í veg fyrir hörð átök líkt og í fyrrinótt þegar eldar loguðu víða. Deilt er um rýmingu Ungdómshússins svokallaða, æskulýðsmiðstöðvar á Norðurbrú.
Silikonblandað bensín veldur vanda á Bretlandi
Bílar mörg þúsund breskra ökumanna hafa bilað síðustu daga vegna silikonblandaðs bensíns sem þeir hafa dælt á þá. Viðskiptaskrifstofa Bretlands rannsakar málið.

Friðsamleg mótmæli í dag
Mótmæli hafa farið friðsamlega fram í Kaupmannahöfn í dag eftir hörð átök lögreglu og mótmælenda síðustu nótt. Deilt er um rýmingu æskulýðsstöðvar á Norðurbrú. Lögregla óttast að þar verði frekari átök í nótt. Íslenskur ljósmyndari segir mótmælendur hafa misst samúð hins venjulega Dana.

Saknaðargrátur í X-Factor
Tilfinningarnar báru marga ofurliði þegar Alan þurfti að taka pokann sinn í hæfileikakeppninni X-factor í gær. Það kom í hlut Ellýar að skera úr um hvort dúettinn Hara eða Alan lykju keppni og eftir langan umhugsunarfrest var það Alan sem fékk reisupassann. Hann var í hópi Einars Bárðarsonar sem á nú eftir tvo keppendur. Einar var ekki sáttur við að þurfa að sjá á bak Alani og gat ekki haldið aftur af tárum sínum. Halla Vilhjálmsdóttir, kynnir keppninnar, var einnig beygð þegar í ljós kom að Alan væri dottinn úr leik og því ljóst að Alan hefur tengst samstarfsfólki sínu sterkum böndum og verði sárt saknað.

Guðbergur og Álfrún heiðruð
Cervantes-stofan var opnuð formlega í dag í hátíðarsal Háskóla Íslands. Við það tækifæri voru doktor Álfrún Gunnlaugsdóttir, prófessor, og Guðbergur Bergsson, rithöfundur, heiðruð af spænska ríkinu; hún fyrir kennslu á spænskum og suður-amerískum bókmenntum og hann fyrir þýðingar. Það var Doktor Enrique Bernardez, prófessor við Complitense háskólann í Madríd, sem sæmdi þau heiðursorðu spænskra yfirvalda.

Rök menntamálaráðherra ómarktæk
Ekkert mark er takandi á rökum menntamálaráðherra fyrir því að hunsa tilnefningar Blaðamannafélags Íslands í sérfræðinganefnd NJC. Þetta segir Arna Schram, formaður félagsins. Hún segir leitt að menntamálaráðherra hafi ákveðið að ljúka fimmtíu ára samstarfi við Blaðamannafélagið með þessum hætti.

60 ályktanir Framsóknarmanna
Ísland verður áfram á grænu ljósi tækifæranna, sagði varaformaður Framsóknarflokksins í lok flokksþings nú síðdegis. Formaður flokksins segir fráleitt að heilbrigðisráðherra hafi verið með fjandsamlegar hótanir í gær þegar hún gaf í skyn að til stjórnarslita gæti komið vegna auðlindaákvæðis sem framsóknarmenn vilja fá í stjórnarskrá.

Sjálfstæðismenn gefa lítið fyrir hótanir heilbrigðisráðherra
Sjálfstæðismenn gefa lítið fyrir hótanir heilbrigðisráðherra um stjórnarslit, samþykki þeir ekki að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá. Það er sorglegt þegar gott fólk fer á límingunum út af engu, segir Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður flokksins.

Marel keypti Póls til að eyða samkeppni
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar krefst þess að stjórnvöld bregðist við fækkun starfa í bænum. Hann segir ákvörðun Marels að hætta starfsemi á Ísafirði ógnun við atvinnulíf bæjarins og telur þá hafa verið að ryðja burt samkeppni þegar fyrirtækið keypti Póls fyrir þremur árum.

Ósanngjörn þjóðlendustefna
Þjóðlendustefna ríkisins er ósanngjörn og henni þarf að breyta. Þetta sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndaflokksins, á málefnaráðstefnu flokksins sem hófst í morgun. Yfirskrift ráðstefnunnar er mannúðleg markaðshyggja, einstaklingurinn í öndvegi og munu ýmsir fræðimenn flytja erindi um ýmis þjóðfélagsleg mál svo sem eins skatta og velferð, landnýtingu og landvernd og alþjóðavæðingu.

Langt undir spám
Fjölmiðla- og afþreyingarfélagið 365 hf. tapaði 6,9 milljörðum króna á síðasta ári. Sé einungis horft á áframhaldandi starfsemi nemur tapið 1,2 milljörðum. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam 1.552 milljónum króna. „Ljóst er að rekstrarniðurstaða félagsins er óásættanleg,“ segir forstjóri fyrirtækisins.

Óeirðir á Norðurbrú aðra nóttina í röð
Vel á annað hundrað mótmælendur frá ýmsum löndum voru handteknir í óeirðum á götum Norðurbrúar í Kaupmannahöfn í nótt. Óeirðasamt hefur verið í þessum borgarhluta síðan á fimmtudaginn þegar lögregla rýmdi æskulýðsmiðstöð á svæðinu með valdi. Að minnsta kosti einn mótmælandi slasaðist í atganginum í nótt.

Vissi ekki um kaupréttinn
Endurskoðandi sem áritaði ársreikninga Baugs vissi ekki um kauprétt æðstu stjórnenda félagsins fyrr en rúmum mánuði eftir að lögreglurannsókn hófst.

Ráðherra landhersins segir af sér
Ráðherra bandaríska landhersins, Francis Harvey, hefur sagt af sér. Hann átti að sjá um að herinn gengi eins og smurð vél. Á meðal verka hans var að sjá um hermenn sem höfðu slasast í Írak eða Afganistan.

Þriggja bíla árekstur í kvöld
Þriggja bíla árekstur varð í kvöld á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Tveir bílar rákust saman og sá þriðji nuddaðist utan þá rétt á eftir. Bílarnir sem rákust fyrst saman voru síðan fluttir í burtu með kranabíl þar sem þeir voru mikið skemmdir. Þriðja bílnum var keyrt í burtu. Ökumenn bílanna tveggja voru fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsli en ökumaður í þriðja bílnum slapp ómeiddur.
Enn varað við snjóflóðahættu
Það er búið að ryðja snjóflóðið sem féll í Hvalnesskriðum síðdegis. Þrátt fyrir það er enn varað við hættu á snjóflóðum í skriðunum og það er þæfingsfærð frá Höfn austur undir Breiðdalsvík.Vegurinn er því ekki fær eindrifsbílum.

Tunglmyrkvi annað kvöld
Stjörnuáhugamenn bíða nú með óþreyju tunglmyrkvans sem á að vera á morgun. Hann á eftir að sjást best í Evrópu. Hann byrjar klukkan 18 mínútur yfir átta annað kvöld og verður tunglið alfarið í skugga jarðarinnar á milli 22:44 og 23:58 að íslenskum tíma. Hann mun sjást skýrt og greinilega á Íslandi, ef skýjafar leyfir.

Nowak ákærð fyrir tilraun til mannráns
Lisa Nowak, geimfarinn sem keyrði yfir hálf Bandaríkin íklædd bleyju, til þess að geta náð sér niðri á konu sem hún taldi keppinaut sinn um ástir annars geimfara, hefur verið ákærð fyrir tilraun til mannráns.

Árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu
Árekstur varð á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu rétt í þessu. Sem stendur er ekki vitað hvort að það hafi verið slys á fólki en sjúkrabílar eru þó komnir á staðinn. Ekki er vitað hversu margir bílar lentu í árekstrinum. Við verðum með fleiri fregnir af þessu máli um leið og þær berast.

Gatnakerfið á Akureyri hættulegt
Brattar brekkur í umferðarkerfinu á Akureyri valda ítrekað slysum. Landsþekktur ökuþór segir opinbera aðila ábyrga fyrir umbótum en lögreglan segir varkárni ökumanna mikilvægasta. Harður árekstur varð í gær á mótum Þórunnarstrætis og Glerárgötu á Akureyri. Slysið er rakið til hálku en þarna geta akstursaðstæður orðið mjög varasamar og betra að fara sér hægt.

Miklir viðskiptamöguleikar fyrir íslensk fyrirtæki
Íslensk fyrirtæki telja mikla möguleika felast í viðskiptum við Suður-Afríku, ekki síst vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu sem þar fer fram árið 2010. Landsvirkjun er á meðal þeirra fyrirtækja sem taka þátt í afrísku útrásinni.
Vill greiða fyrir viðskiptum
Á fundi Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku, í Höfðaborg í vikunni kom fram gagnkvæmur áhugi á samningum á sviði loftferða og tvísköttunar. Samkomulag um slíkt myndi greiða verulega fyrir viðskiptum landanna.

Jolie-Pitt að ættleiða aftur
Angelina Jolie og Brad Pitt ætla sér að ættleiða barn frá Víetnam á næstu dögum. Ættleiðingarfulltrúi í Víetnam sagði að Angelina hefði skilað inn eyðublaði þar sem hún biður um leyfi til þess að ættleiða barn frá landinu.

Stálu 5 hundum
Fjölskylda, í Los Angeles, varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í gær þegar vopnaðir glæpamenn réðust inn á heimili hennar og rændu þaðan fimm hundum, þar af fjórum hvolpum sem voru til sölu. Atgangurinn náðist allur á myndband.

Loftslagsbreytingar jafn mikil ógn og stríð
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir loftslagsbreytingar jafn mikla ógn við mannkynið og styrjaldir. Loftslagsmál verði sett á oddinn meðan hann stýri samtökunum. Skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu segir sjö leiðir hugsanlega færar til lausnar á vandanum.

Botnar ekkert í húsleit Samkeppniseftirlitsins
Sveit manna frá Samkeppniseftirlitinu birtist fyrirvaralaust í morgun á öllum stærstu ferðaskrifstofum landsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin eru grunuð um ólögmætt samráð. Framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar segir samkeppnina aldrei hafa verið grimmari. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segist ekkert botna í húsleitinni.
Bílvelta á Hellisheiði
Nú rétt í þessu varð bílvelta á Hellisheiði. Um jeppling var að ræða og virðist hann hafa skemmst mikið í veltunni. Að sögn sjónarvotta skreið ökumaðurinn, kona af erlendu bergi brotin, út úr bílnum án aðstoðar og virðist hafa sloppið ómeidd.

Chelsea viðurkennir brot sín
Chelsea hefur gengist við ákæru enska knattspyrnusambandsins um að hafa ekki haft stjórn á leikmönnum og / eða starfsmönnum sínum í úrslitaleik Carling bikarkeppninnar. Chelsea hefur þó beðið sambandið um áheyrn til þess að útskýra sína hlið á málinu. Sams konar kæra var lögð fram gegn Arsenal liðinu.

18 lögreglumenn myrtir í Írak
Hópur uppreisnarmanna í Írak, sem kallar sig „Íslamska ríkið í Írak“ og segist tengjast al-Kaída, skýrði frá því í dag að þeir hefðu rænt og myrt 18 lögreglumenn. Þeir sögðust hafa myrt mennina þar sem stjórnvöld í Írak virtu að vettugi kröfur þeirra.