Fréttir

Mótmæli ef neyðarlög ekki afnumin
Stjórnarandstæðingar í Pakistan köstuðu í morgun niður stríðshanskanum og skoruð á Musharraf forseta landsins að afnema neyðarlög sem hann setti um síðustu helgi. Umfangsmikil mótmæli verða boðuð á næsta þriðjudag gangi hann ekki að kröfunni.

Þjóðarsorg í Afganistan
3 daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Afganistan eftir að 41 hið minnsta týndi lífi í sjálfsvígssprengjuárás norður af höfuðborginni Kabúl í gær. Árásin eru sú mannskæðasta í landinu síðan fjölþjóðlegt herlið - undir forystu Bandaríkjamanna - gerði innrás 2001 og steypti stjórn Talíbana. Þeir segjast ekki bera ábyrgð á ódæðinu.

Mótmælt í Georgíu
Óeirðalögreglumenn notuðu táragas, vatnsþrýstidælur og kylfur til að dreifa mótmælendum í Tíblisi, höfuðborg Georgíu í morgun. Mótmælt var þar í morgun - sjötta daginn í röð. Afsagnar Mikhaíls Saakashvilis forseta, er krafist vegna ásakan um spillingu og einræðistilburði.

Risatap hjá General Motors
Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM), annar umsvifamesta fyrirtækið á þessu sviði á eftir Toyota, tapaði 39 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 2.273 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra nam tap fyrirtækisins litlum 147 milljónum dala. Þetta er stærsta tap í sögu bílaframleiðandans.

Munur milli punds og dals ekki meiri í 26 ár
Gengi breska pundsins rauk í dag í hæstu hæðir gagnvart bandaríkjadal, sem hefur lækkað ört í kjölfar stýrivaxtalækkunar bandaríska seðlabankans í síðustu viku. Þegar mest lét fengust 2,1052 dalir fyrir hvert pund. Gengi evrunnar hefur sömuleiðis ekki verið sterkara gagnvart dalnum.

Fjöldi félaga fellur í Kauphöllinni
Gengi hlutabréfa í Icelandair féll um sex prósent og fór í 22,3 krónur á hlut skömmu eftir að viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag. Gengi bréfa í félaginu hefur aldrei verið lægra. Fjöldi félaga í Kauphöllinni tók sömuleiðis á sig skell og féll Úrvalsvísitalan um tæp 2,4 prósent. Einungis tvö færeysk félög og SPRON hafa hækkað í dag.

Toyota á góðri keyrslu
Hagnaður japanska bílaframleiðandans Toyota nam 450,9 milljörðum jena, jafnvirði rúmra 233 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi, sem er annar fjórðungur félagsins. Til samanburðar nam hagnaðurinn 405,7 milljörðum jena á sama tíma í fyrra og nemur aukningin því 11 prósentum á milli ára.

Olíuverð í hæstu hæðum
Verð á hráolíu rauk upp í 98 dali á fjármálamörkuðum í Asíu í nótt en verðið hefur aldrei verið hærra. Helsta ástæðan fyrir hækkuninni nú er lækkun á gengi bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum og áhyggjur manna um að olíuframleiðendur nái ekki að anna eftirspurn eftir svartagullinu í vetur. Þá spilar veðurfar inn í en stormur á Norðursjó varð til þess að brestur varð á olíuframleiðslu.

Thorning-Schmidt vill komast að
Jafnaðarmenn í Danmörku vilja taka aftur skattalækkanir og byggja upp velferðarkerfið. Jafnaðarmenn hafa verið sex ár í stjórnarandstöðu og leggja mikla áherslu á að komast í stjórn.

500 handteknir
Yfirvöld í Pakista hafa handtekið hátt í 500 manns eftir að neyðarlög voru sett þar í gær - þar á meðal stjórnarandstæðinga og fulltrúa hjálparsamtaka. Forsætisráðherra Pakistans segir neyðarlög gilda eins lengi og þurfa þyki og þingkosningum frestað um ár.

Hermönnum skilað
Skæruliðar Kúrda létu í morgun lausa átta tyrkneska hermenn sem þeir tóku höndum í umsátri í síðasta mánuði. Óvíst er hvort það dugar til að koma í veg fyrir innrás Tyrkja í Norður-Írak.

Þingkosningum frestað
Útlit er fyrir að fyrirhuguðum þingkosningum í Pakistan í janúar verði fresað um óákveðinn tíma. Musharraf forseti tók sér alræðisvald í landinu með neyðarlögum í gær. Hann segist hafa gripið til þess ráðs til að forða landinu frá glötun.

Verstu flóð í hálfa öld
Nærri milljón íbúar í Tabasco-héraði í Suður-Mexíkó hafa misst heimili sín í einhverjum mestu flóðum í landinu í hálfa öld. Um 80% héraðsins eru undir vatni. Mikilli rigningu er spáð á svæðinu um helgina.

Neyðarlög í Pakistan
Neyðarástandi var lýst yfir í Pakistan í dag. Musharraf forseti tók sér alræðisvald og skipti um forseta hæstréttar. Dómstóllinn á enn eftir að úrskurða um kjörgengi Musharrafs í síðustu kosningum.

Bandarískt sjónvarp í óvissu
Framtíð margra þekktustu sjónvarpsþátta Bandaríkjanna er í óvissu eftir að bandlag handritshöfunda í Hollywood samþykkti í gærkvöldi að boða til verkfalls á mánudag. Viðræður samningsaðila hafa siglt í strand og ólíklegt talið að verkfalli verði forðað.

Kjarnorkusérfræðingar í Norður-Kóreu
Bandarískir kjarnorkusérfræðingar skoða í dag kjarnakljúfinn í Yongbyon í Norður-Kóreu. Þeirra verk verður að rífa hann og hefjast þeir handa við það á mánudaginn. Það er stórt skref fyrir ráðamenn í Pyongyang - sem hafa heitið því að leggja kjarnorkuáætlun sína á hilluna.

Ráðist gegn PKK
Hérðasstjórn Kúrda lét í morgun loka skrifstofum skæruliðahóps aðskilnaðarsinna í norðurhluta Íraks. Forsætisráðherra landsins sagði í morgun að allt yrði gert til að stöðva skæruliðana og koma í veg fyrir innrás Tyrkja.

Áhyggur af framhaldinu á Srí Lanka
Blikur eru á lofti á Srí Lanka eftir að helsti samningamaður skæruliða Tamíltígra féll ásamt fimm öðrum háttsettum mönnum í loftárás stjórnarhersins í morgun.

Metnir sem lífshættulegir bílar
Toyota Hilux pallbílar eru lífshættulegir að mati sænsks bílablaðs. Bifreiðin fer nærri því að velta í ökuprófi. Samskonar próf olli vandræðum fyrir A-bíl Mercedez Benz fyrir áratug.

Ungliðahópur Vítisengla stofnaður í Danmörku
Vítisenglar í Danmörku hafa stofnað svokallaðan ungliðahóp fyrir þá sem vilja ganga í samtökin en hafa ekki efni á vélfáki. Ekki fæst gefið upp hvaða tilgangi nýi hópurinn þjóni.

Úrvalsvísitalan komin undir 8.000 stigin
Gengi skráðra fyrirtækja í Kauphöll Íslands hefur almennt lækkað eftir upphaf viðskipta í dag. Kaupþing og Landsbankinn reka lækkanalestina en gengi bréfa í bönkunum lækkaði um 1,84 prósent í fyrstu viðskiptum. Fast á hæla bankanna fylgja bankar og fjármálastofnanir að báðum færeysku bönkunum, Existu og SPRON undanskildum.

FL Group tapaði 27 milljörðum
FL Group tapaði 27,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 5,3 milljarða króna hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta er á pari við væntingar greinenda, sem reiknaðist til að tapið myndi hlaupa á 26 til 29 milljörðum króna. Í uppgjörinu segir að miklar sveiflur á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum hafi haft áhrif á afkomuna.

Krónan styrkist mikið á einum mánuði
Gengi krónunnar hefur hækkað töluvert gagnvart öðrum gjaldmiðlum undanfarinn mánuð. Gengi krónunnar gagnvart evru, Bandaríkjadal og sterlingspundi hefur til að mynda hækkað í kringum þrjár krónur.

Opinber útgjöld nálgast helming landsframleiðslu
Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að á næsta ári nemi útgjöld hins opinbera 47 prósentum af landsframleiðslu. Í ár nemi útgjöldin 44,5 prósent landsframleiðslunnar. Þannig aukist opinber útgjöld um 5,5 prósent á þessu ári og um 3,5 prósent á því næsta.

Atvinnuleysi fjögur prósent eftir tvö ár
Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi hér á landi verði um fjögur prósent ár árinum 2009-10. Stýrivextir bankans hafi sömuleiðis lækkað umtalsvert frá því sem nú er og einnig hafi töluvert dregið úr verðbólgu og hún verði komin nær 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði bankans.

Úrvalsvísitalan við 8.000 stigin
Gengi hlutabréfa lækkaði almennt í Kauphöllinni í dag, gengi SPRON mest, eða um 3,82 prósent. Þá lækkaði gengi allra fjármálastofnana sömuleiðis. Markaðsverðmæti einungis þriggja fyrirtækja hækkaði. Það eru Össur, Teymi og færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum en gengi félagsins hefur verið á hraðferð upp og stendur nú í hæstu hæðum.

Chrysler segir upp 10.000 manns
Bandaríski bílaframleiðandinn Chrysler ætlar að segja upp allt að 10.000 manns í hagræðingarskyni á næsta ári. Félagið segir árangurinn í verra lagi á þessu ári og spáir verri sölu á bílum undir merkjum fyrirtækisins en áður var reiknað með.

Einkaneysla undir væntingum vestanhafs
Einkaneysla jókst um 0,3 prósent á milli mánaða í Bandaríkjunum í september. Þetta er 0,1 prósentustigi undir væntingum en skýrist af háu stýrivaxtastigi og auknum samdrætti á fasteignamarkaði vestanhafs.

Rauður dagur í Kauphöllinni
Gengi hlutabréfa hefur lækkað í Kauphöll Íslands í dag. Gengi bréfa í Existu hefur lækkað mest, eða um 2,15 prósent. Ekkert félag hefur hins vegar hækkað á móti. Þá hefur gengi krónunnar sömuleiðis styrkst um tæp 1,8 prósent.

Eimskip selur fasteignir fyrir 18,8 milljarða
Eimskip hefur selt hluta fasteigna sinna í Kanada fyrir 305 milljónir kanadískra dala, jafnvirði 18,8 milljarða íslenskra króna. Andvirði sölunnar verður nýtt til að greiða niður skuldir. Kaupandi er fasteignafélagið Kingsett í Kanada sem unnið hefur með Eimskip, meðal annars að kaupum á fyrirtækjunum Atlas og Versacold.