Páll Magnússon og Helgi Seljan rífast

Til orðaskipta kom á milli Helga Seljan, sjónvarpsmanns, og Páls Magnússonar, útvarpstjóra, eftir fund með starfsfólki RÚV á Markúsartorgi í Efstaleitinu fyrir hádegi í dag. Sagði Páll við Helga að hann væri „óþverri.“

Ríkisútvarpið sagði upp 39 starfsmönnum í gær en alls stendur til að fækka starfsmönnum um 60.

Mikill hiti var á fundinum og vildi fólk fá útskýringar. Helgi Seljan í Kastljósinu krafðist þess að fá svör frá útvarpsstjóranum.

Á fundinum spurði sjónvarpsmaðurinn góðkunni útvarpsstjórann út í þær kenningar að þetta útspil væri í raun allt saman leikrit til að gefa ríkisstjórninni langt nef og sýna vald sitt.

Páll brást hinn versti við og samkvæmt heimildum Vísis hundskammaði hann Helga í kjölfarið.

Eftir fundinn sjálfan reyndi Helgi Seljan að nálgast Pál og spurði hann út í þessi öfgafullu viðbrögð. Páll brást ókvæða við spurningunni eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þar sem Páll segir: „Þú ættir að skammast þín, þú ert óþverri.“ Síðar heyrðist Páll kalla Helga skíthæl. Helgi svaraði því á þann veg að viðbrögð Páls væru barnaleg. Þá svaraði Páll um hæl: „Það er skárra að vera barn en skíthæll.“

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

64282
00:16

Vinsælt í flokknum Fréttir