Innlent

Stöðvuðu stolinn bíl með naglamottu eftir eftir­för um alla borg

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hér sjást minnst átta lögreglumenn handtaka ökumanninn.
Hér sjást minnst átta lögreglumenn handtaka ökumanninn. Aðsend

Karlmaður var handtekinn á sjöunda tímanum í kvöld eftir langa eftirför lögreglu um alla höfuðborgina. Maðurinn ók á stolnum bíl og reyndi að flýja lögreglu sem stöðvaði hann loks með naglamottu.

Hörður Lilliendahl varðstjóri í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglumenn hafa komið auga á bílinn sem tilkynnt hafði verið um að væri stolinn. Eftirför fór í hönd sem varði lengi.

Á endanum tókst lögreglumönnum að kasta fyrir hann naglamottu á Sæbraut.

„Hann fer yfir átta nagla hjá okkur, sprengir eitt dekkið og þá gefst hann upp,“ segir Hörður.

Bíllinn nam staðar á Miklubraut og þar var ökumaðurinn handtekinn. Hann verður yfirheyrður þegar hann er í ástandi til þess að láta yfirheyra sig.

Mikill viðbúnaður var við handtökuna og talsvert að lögreglubílum tóku þátt í aðgerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×