Körfubolti

Shabazz látinn fara frá Grinda­vík

Aron Guðmundsson skrifar
Khalil Shabazz sækir hér á körfuna í leik með Grindavík
Khalil Shabazz sækir hér á körfuna í leik með Grindavík Vísir/Anton

Bandaríski leikstjórnandinn Khalil Shabazz hefur verið látinn fara frá toppliði Bónus deildarinnar í körfubolta, Grindavík. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Grindvíkingum núna seinni partinn en Shabazz gekk í raðir félagsins fyrir yfirstandandi tímabil.

Shabazz hefur komið við sögu í sextán leikjum með Grindvíkingum í Bónus deildinni og er hann með 23 skoruð stig að meðaltali í þeim leikjum, 9,9 fráköst og fimm stoðsendingar.  

Hávær orðrómur hafði verið á kreiki þess efnis að Grindvíkingar ætluðu að hrófla til í leikmannahópi sínum fyrir lok félagsskiptagluggans núna um helgina og aðspurður um það hafði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga, þetta að segja: 

„Við erum bara að skoða ýmis mál. Það er stutt í þetta og við erum að renna á rassgatið með þetta. Við höfum fram á miðnætti á laugardag og við sjáum bara hvað verður. Við erum að skoða eitt og annað en ekkert fast í hendi.”

Jeremy Pargo, leikstjórnandi sem spilaði með Grindavík á síðasta tímabili er sterlega orðaður við endurkomu til félagsins. Pargo spilaði fimmtán leiki með Grindavík í Bónus deildinni á síðasta tímabili og setti niður 20 stig að meðaltali í þeim leikjum, tók 5,7 fráköst og 7,4 stoðsendingar.

Bandaríkjamaðurinn er hokinn af reynslu og spilað á sínum tíma tvö tímabil í NBA-deildinni, með Memphis Grizzlies 2011-12 og svo Cleveland Cavaliers og Philadelphia 76ers 2012-13.

Seinni leiktíðina spilaði hann að meðaltali 17,9 mínútur í leik með Cleveland og 14,9 mínútur með Philadelphia. Hann var svo einnig hjá Golden State Warriors og spilaði þar þrjá leiki tímabilið 2019-20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×