Erlent

Ná saman um myndun minni­hluta­stjórnar í Hollandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Rob Jetten verður að óbreyttu yngsti forsætisráðherra í sögu Hollands. 
Rob Jetten verður að óbreyttu yngsti forsætisráðherra í sögu Hollands.  EPA/PHIL NIJHUIS

Þrír stjórnmálaflokkar hafa náð samkomulagi um myndun minnihlutastjórnar í Hollandi en stjórnarflokkarnir munu þurfa að reiða sig á stuðning annarra flokka til að ná málum í gegn. Rob Jetten, leiðtogi miðjuflokksins D66 sem er hliðhollur Evrópusambandinu, segir samstarfsflokkana vera ólma í að hefjast handa við stjórnvölinn eftir langar og flóknar viðræður um stjórnarmyndun.

Samkvæmt umfjöllun Deutsche Welle er um að ræða minnihlutastjórn, sem sjaldséð er í Hollandi, sem samanstendur af miðju- og hægriflokkunum D66, Kristilegum demókrötum og VVD. Samtals hafa flokkarnir aðeins 66 af 150 þingmönnum landsins og þurfa þannig að reiða sig á stuðning eða hlutleysi annarra flokka. D66 vann kosningasigur í þingkosningunum í október og þess er vænst að Rob Jetten verði forsætisráðherra landsins.

Myndun stjórnar hefur þannig verið lengi í fæðingu en nú glittir loks í samkomulag sem leiðtogar flokkanna þriggja greindu frá seint í gær. Þess er vænst að samkomulag um stjórnarsamstarf flokkanna verði kynnt nánar á föstudaginn að því er AFP greinir frá. Jettan er 38 ára gamall og verður að óbreyttu yngsti forsætisráðherra landsins til þessa og sá fyrsti sem er samkynhneigður svo vitað sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×