Innlent

Kynna einn fram­bjóð­enda á dag næstu daga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björn Ingi Hrafnsson er með í ráðum við uppstillingu á lista Miðflokksins í Reykjavík fyrir kosningarnar. Þegar hafa Lárus Blöndal og Kristín Kolbrún verið kynnt til sögunnar.
Björn Ingi Hrafnsson er með í ráðum við uppstillingu á lista Miðflokksins í Reykjavík fyrir kosningarnar. Þegar hafa Lárus Blöndal og Kristín Kolbrún verið kynnt til sögunnar. Vísir/samsett

Miðflokkurinn byrjaði í fyrradag að kynna fólk á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og hyggst halda áfram að kynna einn frambjóðenda á dag á næstu dögum. Ekki liggur endanlega fyrir hvenær fullur listi verður kynntur eða hulunni svipt af því hver verður oddviti flokksins í Reykjavík.

Þetta staðfestir Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður formanns Miðflokksins, sem hefur verið kjördæmafélagi flokksins í Reykjavík innan handar við val á lista og uppstillingu hans í Reykjavík. Í gær Lárus Blöndal Sigurðsson kynntur til sögunnar og Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage í fyrradag. Þá verður þriðji frambjóðandinn kynntur til leiks síðar í dag að sögn Björns Inga.

„Kosningarnar eru ekki fyrr en í maí, þannig það er enginn að missa af lestinni,“ segir Björn Ingi. Orðrómur hafði verið uppi um að hann hygðist sjálfur leiða listann en hann hefur sagt það ekki standa til. „Við erum að tefla fram einu nafni á dag og erum með fullt af fólki sem við ætlum að kynna núna til leiks.“

Aðspurður segir Björn Ingi að röðin sem frambjóðendur verða kynntir í ekki endilega endurspegla hvaða sæti þeir taki á lista. „Það er bara verið að búa til smá spennu,“ segir Björn Ingi. Það séu stöðug samtöl í gangi og listinn muni hægt og rólega taka á sig mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×