Skoðun

Þegar kristin trú er sögð án krossins — Hvar sagan byrjar

Hilmar Kristinsson skrifar

„Hver eru þín gildi?“

Þetta er ein fyrsta spurningin sem mætir gesti á vefsíðu Þjóðkirkjunnar. Ekki spurning um Guð. Ekki um Jesú. Ekki um krossinn. Heldur um þig.

Spurningin er hlý. Hún er eðlileg. Hún er kunnugleg. Flest okkar eru vön því að byrja þar. Í heimi sjálfshjálpar, ráðgjafar og persónulegrar vegferðar er þetta talinn sjálfsagður upphafspunktur.

Og einmitt þess vegna er hann áhrifamikill.

Sagan sem fylgir heldur áfram í sama anda. Hún spyr hvernig maður breytist, hvað maður trúir og hvers maður megi vona. Allt eru þetta góðar spurningar. Mannlegar spurningar. Enginn getur mótmælt þeim.

En spurningarnar segja samt eitthvað mikilvægt: Hvar sagan byrjar.

Röðin

Á vefsíðunni kemur Guð inn í söguna síðar. Hann er kynntur sem sá sem mætir manninum, gengur með honum og er í tengslum við líf hans. Guð er nálægur, ekki fjarlægur. Hlýr, ekki ógnandi.

Jesús er líka nefndur. Nafnið er þekkt. Það vekur ekki andstöðu. Það þarf ekki útskýringu.

Síðan, neðarlega, birtist postullega trúarjátningin. Rétt orðuð. Óbreytt. Hún er þarna.

En hún er ekki þar sem sagan byrjar. Og hún er ekki þar sem sagan endar.

Hún kemur inn eftir á, þegar ramminn er þegar kominn. Hún styður frásögn sem hefur verið mótuð annars staðar. Hún er virkar sem staðfesting, ekki upphaf.

Þetta er ekki afneitun.

Þetta er röðun.

Og röðun skiptir máli.

Hvað sagan þarf – og hvað ekki

Sagan sem er sögð á síðunni er látin virka. Hún er samfelld. Hún er skiljanleg. Hún er aðgengileg. Hún stoppar ekki lesandann með erfiðum spurningum. Hún hrekur engan frá sér.

Guð er þar.

Jesús er þar.

En þegar kemur að dauða Jesú þá hægist ekki á. Það er sagt að hann hafi dáið, en ekki hvers vegna það þurfti að gerast. Það er ekki útskýrt hvað var í húfi. Það er ekki sagt hvað fór úrskeiðis sem krafðist þess.

Sagan heldur bara áfram.

Og þegar saga heldur áfram án þess að segja hvers vegna Jesús þurfti að deyja, þá segir sagan sjálf hvað hún þarf ekki lengur til að ganga upp.

Það sem krossinn leyfir ekki

Krossinn er erfiður vegna þess að hann leyfir ekki sögunni að byrja í manninum. Hann leyfir ekki að lausnin sé bara falleg orð. Og hann leyfir ekki að kærleikur sé talaður án þess að tekið sé á því sem er rangt.

Krossinn stoppar söguna.

Hann segir: „Bíddu.“

Hann spyr ekki fyrst hvernig þér líður, heldur hvað fór úrskeiðis.

Jesús er nefndur.

En það er ekki útskýrt af hverju hann þurfti að deyja. Það er eins og sagan segi: „Hann dó,“ en svari aldrei spurningunni: „Hvers vegna?“

Og ef sagan getur gengið áfram án þess svars, þá er krossinn ekki lengur þungamiðjan.

Það sem þarf ekki lengur að segja

Það er ekki sagt hvað er rangt. Það er ekki sagt: „Stoppaðu og snúðu við.“

Og það er ekki sagt: „Guð mun einhvern daginn spyrja mig: Hvað gerðir þú við sannleikann?“

Þessar setningar eru ekki rangar.

Þær eru einfaldlega ekki nauðsynlegar til að sagan gangi upp.

Sagan heldur áfram án þeirra. Og einmitt það segir sitt.

Trú sem ferð

Allt í framsetningunni bendir í sömu átt. Trú er kynnt sem ferð. Ferli. Samræða. Vegferð sem maður gengur sjálfur.

Ferð er örugg mynd. Hún leyfir manni að vera á leiðinni án þess að þurfa að staldra. Hún krefst ekki ákvörðunar strax. Hún leyfir manni að ganga áfram, jafnvel þótt maður sé ekki viss hvert leiðin liggur.

En kristin trú hefur aldrei fyrst og fremst verið ferð. Hún hefur verið boðskapur sem stöðvar manninn og segir: „Hér er sannleikur sem þú verður að taka afstöðu til.“

Sagan sem hér er sögð á vefsíðu Þjóðkirkjunnar stöðvar ekki lesandann þar.

Þegar sagan er látin ganga upp

Í Ritningunni er til sagnahefð þar sem Guð leyfir mönnum ekki að láta söguna ganga upp með fallegu orðalagi. Þar er hægt að segja rétt, en samt gera rangt. Þar er hægt að tala um Guð, en færa hlýðnina til hliðar.

Sagan gengur áfram, ekki vegna þess að hún er sönn, heldur vegna þess að hún er nægilega stillt. Guð er nefndur. En vilji hans fær ekki lengur að stöðva framvinduna.

Það er ekki uppreisn.

Það er svæfandi samhljómur.

Og einmitt þess vegna er hann hættulegur.

Spurningin

Sagan sem hér er sögð er hlý. Hún er mannvæn. Henni er auðvelt að fylgja.

Hún er látin virka.

En hún virkar án þess að segja hvers vegna Jesús þurfti að deyja. Og þegar sagan um Jesú virkar án þess, stendur eftir spurning sem jafnvel barn skilur:

Til hvers var krossinn þá?

Höfundur er guðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×