Innlent

Endur­tekin og al­var­leg mál valda á­hyggjum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir segir mikilvægt að bregðast strax við til að stöðva endurtekin brot. 
Eygló Harðardóttir segir mikilvægt að bregðast strax við til að stöðva endurtekin brot.  Vísir/Ívar Fannar

Fleiri alvarleg heimilisofbeldismál rötuðu á borð lögreglunnar á síðasta ári miðað við árin áður. Verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra segir málum hafa fjölgað þar sem börn verða fyrir ofbeldi af hendi foreldra en aukin áhersla sé lögð á að stíga inn í slík mál.

Nýjar tölur ríkislögreglustjóra sýna að á síðasta ári bárust hátt í þrettán hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglunnar, sem er nokkuð meira en árið áður. Þá bárust nærri tvö þúsund og fimm hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi og ofbeldi milli skyldra aðila á sama tíma.  

„Við höfum náttúrulega lagt mjög mikla áherslu á það að fólk tilkynni,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra, um hugsanlegar ástæður þessa.

Fleiri alvarleg mál komu upp í fyrra eða hundrað fimmtíu og sex miðað við hundrað og sextán árið áður. 

„Það sem vekur hins vegar áhyggjur er að við erum að sjá aukningu tilvika sem flokkast undir endurtekna eða alvarlega hótun gegn lífi og heilsu.“

Tölurnar sýna jafnframt að málum fjölgaði þar sem börn urðu fyrir ofbeldi af hálfu foreldra.

„Ég veit að það hefur verið aukin áhersla á að stíga inn í og bregðast við málum þar sem foreldrar eru að beita börn ofbeldi og síðan sést bara aukin þekking á afleiðingum þess þegar börn búa við ofbeldið. Þannig að þau séu brotaþolar þrátt fyrir að við sjáum ekki kannski beina líkamlega áverka. En ef þau búa við ofbeldi og eru vitni að ofbeldi þá getur það haft mjög alvarleg áhrif á líðan og þroska þess barns.“

Mikilvægt sé að bregðast við, bæta eftirfylgni og tryggja að úrræði séu til staðar.

„Að þá tökum við höndum saman í því að koma í veg fyrir að það komi upp önnur mál í framhaldinu, aftur og aftur og aftur, og jafnvel á milli kynslóða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×