Handbolti

Sigur Ung­verja stillir upp úr­slita­leik við Ís­land um topp­sætið

Aron Guðmundsson skrifar
Ungverjaland og Ísland berjast um toppsæti F-riðils á EM í handbolta á þriðjudaginn kemur.
Ungverjaland og Ísland berjast um toppsæti F-riðils á EM í handbolta á þriðjudaginn kemur. Vísir/EPA

Ísland og Ungverjaland munu mætast í úrslitaleik um það hvort liðið vinni F_riðilinn á EM í handbolta og taki með sér tvö stig í milliriðla. Þetta varð ljóst eftir sigur Ungverja á Ítölum í kvöld.

Ungverjar voru alltaf skrefinu á undan gegn Ítölum í kvöld og fór svo að á endanum sigldu þeir heim sex marka sigri, 32-26. Úrslitin hafa þá þýðingu að Ísland og Ungverjaland fara upp úr riðlinum í milliriðla en munu leika hreinan úrslitaleik sín á milli á þriðjudaginn kemur um toppsæti riðilsins. 

Það er heldur betur mikilvægt upp á framhaldið að gera að vinna þann leik því þar er möguleiki á að taka með sér tvö stig upp í milliriðil. Geri liðin jafntefli tekur toppliðið eitt stig með sér í milliriðla.

Danir valsa áfram í hægagangi

Á sama tíma áttu ríkjandi heims- og ólympíumeistarar Danmerkur ekki í teljandi vandræðum gegn Rúmeníu í B-riðli. Lokatölur þar urðu 39-24, fimmtán marka sigur Dana sem eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína, komnir áfram í milliriðil og mæta Portúgölum í síðustu umferð riðlakeppninnar í úrslitaleik um toppsæti riðilsins. 

D-riðill galopinn

Þá tapaði Sviss gegn Slóveníu í D-riðli eftir að hafa leitt lengi vel. Lokatölurnar þar 38-35, þriggja marka sigur Slóveníu. Í sama riðli fyrr í kvöld lögðu Færeyingar landslið Svartfjallalands að velli en staðan í riðlinum er á þá leið núna að Slóvenar eru á toppi riðilsins með fjögur stig. Færeyjar eru í 2.sæti með þrjú stig og Sviss í því þriðja með eitt stig. Færeyjar mæta Slóveníu í lokaumferðinni og nægir jafntefli til að tryggja sig áfram í milliriðla en geta með sigri líka tryggt sér toppsæti riðilsins og tvö stig inn í milliriðla. Sviss mætir Svartfjallalandi í lokaumferðinni. Þessi riðill enn galopinn hvað baráttuna um sæti í milliriðlum varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×