Innlent

Kviknaði í Svarta sauðnum í Þor­láks­höfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Veitingastaðurinn Svarti sauðurinn í Þorlákshöfn þar sem eldur kviknaði í dag. Myndin er af Facebook-síðu staðarins.
Veitingastaðurinn Svarti sauðurinn í Þorlákshöfn þar sem eldur kviknaði í dag. Myndin er af Facebook-síðu staðarins. Svarti sauðurinn á Facebook

Nokkuð tjón varð af völdum reyks og hita þegar eldur kviknaði í veitingastaðnum Svarta sauðnum í dag. Staðurinn var mannlaus þegar eldurinn kom upp. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Brunavörnum Árnessýslu barst tilkynning um eldinn um klukkan hálf þrjú. Þegar slökkvilið kom á staðinn kraumaði eldur enn á veitingastaðnum. Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri hjá brunavörnum, segir eldinn hafa kviknaði í útsogsháf í loftsræstikerfi staðarins.

Ekki hafi orðið mikið tjón af eldinum sjálfum en þó nokkuð af reyk og hita. Búið var að reykræsta staðinn og síðustu slökkviliðsmenn voru á leið af vettvangi þegar Vísi náði tali af Halldóri skömmu fyrir klukkan fjögur nú síðdegis.

Veitingastaðurinn var opinn í hádeginu í dag en var lokað klukkan 13:30. Þar var meðal annars boðið upp á lambalæri, gratineraðan plokksfisk og bayonne-skinku samkvæmt Facebook-síðu staðarins.

Halldór segir ekki vitað hvernig eldurinn kom upp en lögregla skoði það væntanlega í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×