Innlent

Fjöldi kyn­ferðis­brota í fyrra heldur yfir meðal­tali

Eiður Þór Árnason skrifar
Nokkuð fleiri umferðarslys komu inn á borð lögreglunnar á Austurlandi árið 2025 en árið á undan.
Nokkuð fleiri umferðarslys komu inn á borð lögreglunnar á Austurlandi árið 2025 en árið á undan. Vísir/jóhann K.

Alls voru ellefu kynferðisbrot skráð hjá lögreglunni á Austurlandi á síðasta ári. Fjöldinn er heldur hærri en meðaltal frá 2015 þar sem skráð brot hafa að jafnaði verið átta talsins á ári hverju. Á sama tíma voru málin færri nú en árið 2024 þegar tólf kynferðisbrot voru skráð og 2022 þegar þau voru fjórtán talsins.

Skráðum heimilisofbeldismálum hefur fækkað frá árinu 2020 en fimmtán slík mál voru skráð hjá lögregluembættinu í fyrra.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum lögreglunnar á Austurlandi fyrir árið 2025. Umferðarslys voru skráð 42 en þau hafa verið 35 að jafnaði frá árinu 2019. Umtalsverð aukning er frá 2024 þegar skráð umferðarslys voru 32 og er um að ræða hátt í þriðjungsaukningu milli ára.

Skráðum umferðarlagabrotum án hraðamyndavéla fjölgaði frá árinu á undan, úr 1.055 í 1.427, og eru nokkuð fleiri en að meðaltali frá 2015. Það á einnig við um skráðan hraðakstur (telur ekki hraðamyndavélar) og ölvunarakstur sem er yfir meðaltali.

Skráðum heimilisofbeldismálum fækkar milli ára. Lögreglan á austurlandi

Heildarfjöldi hegningarlagabrota nær meðaltali

Skráðum brotum vegna fíkniefnaaksturs fækkar frá 2024 en þau eru nærri meðaltali frá árinu 2015. Skráð brot vegna sviptingaraksturs hafa ekki verið færri frá árinu 2015 og voru tuttugu talsins árið 2025, samkvæmt bráðabirgðatölunum. Fjöldi skráðra fíkniefnabrota er nærri meðaltali frá árinu 2015.

Skráð hegningarlagabrot eru svipuð að fjölda hjá lögreglunni á Austurlandi og síðustu ár. Það á einnig við um helstu brotaflokka á borð við eignaspjöll, auðgunarbrot og ofbeldisbrot sem öll eru nærri meðalfjölda brota frá árinu 2015.

Bráðabirgðatölur lögreglunnar á Austurlandi. Brotalínan sýnir meðaltal tímabilsins. Lögreglan á Austurlandi
Bráðabirgðatölur lögreglunnar á Austurlandi. Brotalínan sýnir meðaltal tímabilsins. Lögreglan á Austurlandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×