Erlent

Kennir Selenskí enn og aftur um

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, vilja frið en ekki Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, vilja frið en ekki Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, standi í vegi friðar í Úkraínu en ekki Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Trump heldur því fram að Pútín vilji binda enda á innrás sína í Úkraínu, sem hefur staðið yfir í tæp fjögur ár, en Selenskí vilji það ekki.

Í viðtali við Reuters í gærkvöldi var Trump spurður af hverju viðræður sem Bandaríkjamenn leiddu hefðu ekki skilað friði enn svaraði Trump: „Selenskí“.

Samband Trumps og Selenskís hefur sveiflast upp og niður en fyrir ummælin við Reuters virtist sem það hefði skánað á undanförnum mánuðum.

Ummæli Trumps eru þvert á ummæli ráðamanna í Evrópu og nýlegs mats leyniþjónusta Bandaríkjanna, sem segja Pútín ekki vilja binda enda á innrásina að svo stöddu.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, ítrekaði það í morgun að Rússar hefðu hafnað allri friðarviðleitni. Ekki Úkraínumenn.

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, sagði í morgun að ráðamenn í Moskvu væru sammála Trump. Það væri Selenskí að kenna að ekki væri búið að koma á friði.

Pútín og ráðamenn hans hafa orðið sífellt harðorðari í garð Evrópu að undanförnu og saka meðal annars Evrópumenn um að standa í vegi friðar. Orðræða þessi virðist hafa aukist samhliða versnandi samskiptum margra ríkja Evrópu við Bandaríkin.

Deila um víggirt svæði

Bandaríkjamenn og þá sérstaklega Steve Witkoff, vinur Trumps, og Jared Kushner, tengdasonur hans, hafa átt í miklum viðræðum á undanförnum vikum og mánuðum við Úkraínumenn, Evrópumenn og Rússa um stríðið í Úkraínu. Í þeim viðræðum hafa bandarískir erindrekar þrýst á Úkraínumenn að afhenda Rússum stóran hluta Dónetsk-héraðs.

Sjá einnig: Pútín sagður hafa valið Witkoff

Það er mjög víggirt svæði sem Rússar hafa á undanförnum árum reynt að hernema en án árangurs. Svæðið var á árum áður hernumið af Rússum og úkraínskum aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu en Úkraínumenn náðu því aftur og hafa síðan þá byggt upp miklar varnir þar. Úkraínumenn óttast að það að gefa Rússum þetta svæði myndi veita þeim stökkpall inn í Úkraínu, geri þeir aðra innrás seinna meir.

Ein af kröfum Rússa er að Úkraínumenn hörfi þaðan og fyrr sé ekki hægt að ræða um frið. Trump hefur 

Rússar hafa einnig talað um að Úkraínumenn hörfi frá fleiri héruðum sem þeir halda enn en Rússar hafa þrátt fyrir það innlimað samkvæmt þeirra stjórnarskrá.

Rússar hafa innlimað fimm héruð Úkraínu inn í rússneska ríkissambandið, samkvæmt breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá Rússlands á undanförnum árum. Um er að ræða Krímskaga, Kherson, Sapórisjía, Dónetsk og Lúhansk.

Af þessum héruðum stjórna Rússar eingöngu Krímskaga og Lúhansk að fullu.

Ræða öryggistryggingar

Viðræðurnar hafa einnig snúist um öryggistryggingar handa Úkraínumönnum. Það er að segja hvernig hægt sé að koma í veg fyrir aðra innrás Rússa seinna meir, verði samið um frið.

Sjá einnig: „Stórt fram­fara­skref“

Það hefur gengið erfiðlega en Úkraínumenn vilja fá tryggingu um að Bandaríkjamenn komi þeim til aðstoðar. Tillögurnar sem hafa verið til umræðu fela einnig í sér að einhver ríki í Evrópu sendi hermenn til Úkraínu en það hafa Rússar sagt vera óásættanlegt.

Talar ítrekað máli Pútíns

Síðan hann tók aftur við embætti forseta hefur Trump ítrekað talað máli Pútíns þegar kemur að stríðinu í Úkraínu. Hann hefur einnig að mestu reynt að setja þrýsting á Úkraínumenn um að þeir verði við kröfum Rússa.

Þá virðist Trump ítrekað hafa tekið orðum Pútíns sem sannleik þó þau stangist á við upplýsingar frá hans eigin embættismönnum eða bandamönnum Bandaríkjanna í Evrópu.

Hann hefur þar að auki ítrekað hótað því að beita Rússa hertum refsiaðgerðum en lítið staðið við hótanir sínar. Í október beitti hann tvö stærstu olíufyrirtæki Rússlands refsiaðgerðum en eftirfylgni varðandi þær aðgerðir er talin hafa verið lítil.

Þá sagðist öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham í síðustu viku hafa fengið vilyrði frá Trump fyrir því að hann myndi samþykkja nýtt frumvarp um hertari refsiaðgerðir gegn Rússlandi og að það yrði mögulega lagt fyrir þingið í þessari viku. Ekki er útlit fyrir að svo verði.

Sjá einnig: Segist hafa grænt ljós frá Trump fyrir frekari refsiaðgerðum gegn Rússum

Trump hefur þar að auki þó nokkrum sinnum lagt til vopnahlé í Úkraínu, sem Úkraínumenn hafa samþykkt en Rússar hafnað.

Nota kulda sem vopn

Úkraínumenn eru um þessar mundir að ganga í gegnum einn kaldasta veturinn þar í landi um árabil. Á sama tíma hafa Rússar gert gífurlega umfangsmiklar árásir á orkuinnviði og vatnsveitur, til að gera Úkraínumönnum erfiðara að hita heimili sín.

Ítrekaðar árásir hafa verið gerðar með eldflaugum og drónum sem er regulega beitt gegn orkuverum. Rafmagnsleysi er reglulegt og heitt vatn sjaldgæft víða í Úkraínu.

Veðurspár gefa til kynna að ekki muni hitna í Úkraínu um nokkuð skeið, samkvæmt blaðamanni Wall Street Journal.


Tengdar fréttir

Bretar ætla að framleiða skotflaugar fyrir Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að Úkraínumenn ætli að auka umfang árása innan landamæra Rússlands. Þannig vilji þeir auka þrýstinginn á Rússland og grafa undan getu Rússa til að halda stríðsrekstrinum áfram.

Tóku fimmta olíuskipið: Svona virkar „skuggaflotinn“

Bandarískir hermenn tóku í morgun yfir stjórn olíuflutningaskipsins Olina á Karíbahafinu. Skipið er sagt bera olíu frá Venesúela og mun því hafa verið siglt undir fölsku flaggi. Þetta er fimmta skipið tengt Venesúela sem Bandaríkjamenn taka yfir á nokkrum vikum.

„Ég efa að NATO yrði til staðar fyrir okkur“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, efast um að ríki NATO kæmu Bandaríkjunum til aðstoðar ef Bandaríkjamenn þyrftu nauðsynlega á bandamönnum sínum að halda. Þá segir hann að hvorki Rússar né Kínverjar myndu óttast Atlantshafsbandalagið, ef ekki væri fyrir Bandaríkin.

Neita að ræða við Úkraínumenn vegna meintrar árásar á heimili Pútíns

Ráðamenn í Rússlandi ætla að herða kröfur sínar gagnvart Úkraínumönnum í vegna meintrar drónaárásar á eitt af heimilum Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og vilja ekki eiga beinar viðræður við Úkraínumenn. Ráðamenn í Úkraínu segja enga slíka árás hafa verið gerða en Rússar hafa engar sannanir fært fyrir því að árásin hafi verið gerð og eiga sér langa sögu ósanninda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×