Handbolti

Spálíkan kippir okkur niður á jörðina fyrir EM

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Freyr mun leika stórt hlutverk með íslenska landsliðinu á komandi Evrópumóti í handbolta.
Orri Freyr mun leika stórt hlutverk með íslenska landsliðinu á komandi Evrópumóti í handbolta. Vísir/Getty

Spálíkan Peter O‘Donog­hue, pró­fessors við íþrótta­fræði­deild Háskólans í Reykja­vík, og kollega hans þar spáir því að ís­lenska karla­lands­liðið í hand­bolta endi í einu af sætum sjö til tólf á komandi Evrópumóti og er því ekki eins bjartsýnt á gengi liðsins og sér­fræðingar hafa verið. Líklegast þykir að Ísland endi í áttunda sæti mótsins.

Leikir Evrópumótsins, sem hefst í dag, voru keyrðir eitt hundrað þúsund sinnum í gegnum spálíkan Peters þar sem meðal annars var tekið var til­lit til styrk­leika liðanna sem á mótinu keppa, fyrri árangurs, úr­slita á stór­mótum og stöðu liðanna á heims­listanum sem og stöðu þeirra á sérstökum evrópskum styrkleikalista.. Þá er hið ó­vænta einnig tekið með í myndina. Hundrað þúsund útgáfur af mótinu dregnar saman í eina niðurstöðu.

Klippa: Spálíkan spári fyrir gengi Íslands á EM í handbolta

Innlendir og erlendir sérfræðingar hafa hingað til verið afar bjartsýnir fyrir gengi Íslands á komandi Evrópumóti og hafa margir hverjir bent á að leið liðsins í undanúrslit mótsins sé einkar hagstæð. Ísland hefur keppni á mótinu á morgun gegn Ítalíu í F-riðli en er að auki með Póllandi og Ungverjalandi í riðli.

Spálíkanið er hins vegar ekki eins bjartsýnt á gengi Íslands á mótinu. Þegar að niðurstaða þess er skoðuð þykir líklegast að Ísland endi í sjöunda til tólfta sæti Evrópumótsins og af þessum sætum er talið líklegast að áttunda sæti á Evrópumótinu verði niðurstaðan fyrir Ísland. Það er miðgildið þegar staða Íslands er skoðuð. 

Hingað til hefur Peter reynst mjög sannspár í sínum líkindareikningi en hann spáði því að Íslandi myndi enda í sjöunda til tólfta sæti á EM í handbolta í Þýskalandi árið 2024. Svo fór að liðið lenti í 10. sæti. Einnig gerði Peter gerði spálíkan fyrir HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi. Hann spáði þá Íslandi í áttunda til tíunda sæti, Ísland lenti í 9. sæti.

Þegar möguleikar Íslands á því að komast í undanúrslit Evrópumótsins, hið minnsta, eru skoðaðir gefur niðurstaða spálíkansins það til kynna að tæplega 20 prósent líkur séu á því að það raungerist. 

Sömu gögn gefa til kynna 1,7 prósent líkur á því að Ísland verði Evrópumeistari. Líkurnar hvað þetta varðar eru hagstæðari íslenska landsliðinu en nokkru sinni áður þegar spálíkanið hefur verið notað í aðdraganda stórmóts.

Baráttan um titilinn galopin

Ríkjandi Evrópumeistarar Frakka eru, samkvæmt niðurstöðu spálíkansins, líklegastir til þess að standa uppi sem Evrópumeistarar að móti loknu en afar mjótt er á munum milli efstu liða og reiknast líkur Frakka á Evrópumeistaratitlinum 26 prósent. 

Topp átta á EM skv. spálíkaninu:

  1. Frakkland
  2. Danmörk
  3. Svíþjóð
  4. Ungverjaland
  5. Þýskaland
  6. Slóvenía
  7. Portúgal
  8. Ísland

*Reiknað út frá meðaltali sæta hjá liðunum eftir hundrað þúsund keyrslur í gegnum spálíkanið

Gefur það meðal annars til kynna að baráttan um Evrópumeistaratitilinn sé „galopin,“ að sögn Peters og spáir líkanið jafnari stórmóti, með tilliti til baráttunnar um titilinn, en undanfarin tvö ár.

Peter O‘Donoghue hefur starfað við íþróttafræðideild HR frá árinu 2022. Hann er þekktur vísindamaður í íþróttaheiminum sem hefur sérhæft sig á sviði frammistöðugreininga í íþróttum (e. sport performance analysis) og m.a. starfað hjá enska knattspyrnusambandinu.

Hér fyrir neðan má sjá HR stofuna frá því fyrr í dag þar sem að sérfræðingar fóru yfir komandi Evrópumót og möguleika Íslands þar.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur leik á EM á morgun þegar liðið mætir Ítalíu í fyrsta leik F-riðils klukkan fimm. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×