Fótbolti

Uppgjöfin fyrir Mbappé hafi markað enda­lok Alonso

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso með Florentino Perez forseta Real Madrid eftir síðasta leik sinn sem þjálfari Real Madrid þar sem liðið tapaði á móti Barcelona í úrslitaleik spænska Ofurbikarsins.
Xabi Alonso með Florentino Perez forseta Real Madrid eftir síðasta leik sinn sem þjálfari Real Madrid þar sem liðið tapaði á móti Barcelona í úrslitaleik spænska Ofurbikarsins. Getty/ Jose Breton

Spænski fótboltasérfræðingurinn Guillem Balague veltir fyrir sér ástæðunum fyrir því að Xabi Alonso entist aðeins í sjö mánuði í starfinu.

Xabi Alonso hætti í gær sem þjálfari stærsta fótboltaliðs Evrópu en mikið hefur gengið á í vetur í herbúðum Real.

Balague benti á það hvernig leikmenn Real Madrid höguðu sér eftir dramatískt 3-2 tap á móti Barcelona í úrslitaleiknum um spænska Ofurbikarinn á dögunum.

Gerði eins og stjarnan hans krafðist

„Kylian Mbappé benti liðsfélögum sínum á að yfirgefa völlinn. Xabi Alonso bað hann um að vera kyrr. Mbappé krafðist þess. Og Xabi sneri sér að lokum undan og gerði eins og stjarnan hans krafðist. Enginn heiðursvörður fyrir Barcelona eftir sigur þeirra í spænska ofurbikarnum á sunnudag,“ skrifaði Balague í upphafi pistils síns sem hann nefndi „Af hverju valdatíð Alonso hjá Real Madrid er lokið.“

„Mörgum fannst þetta bera vott um skort á íþróttamannslegri framkomu, eitthvað sem aldrei hefur verið tengt við Xabi Alonso. Það benti líka á eitthvað allt annað, að liðið, en ekki stjórinn, réði ferðinni. Og eftir úrslitaleik sem hafði verið jafn og ráðist á skoti sem breytti um stefnu, gat maður næstum ímyndað sér Xabi hugsa: nóg komið,“ skrifaði Balague og hélt áfram:

„En þetta var ekki uppsögn. Og það var ekki planað. Xabi Alonso bjóst ekki við að hætta sem stjóri Real Madrid – aðeins sjö og hálfum mánuði eftir að hann var ráðinn. Ekki strax allavega,“ skrifaði Balague.

Grófu undan honum frá upphafi

„Að hefja stjóraferil hjá Real Madrid er erfiðasta áskorunin í fótbolta. Enginn segir nei við Madrid, ekki einu sinni þeir sem skilja hversu erfitt það er að breyta menningu sem byggir á einstaklingssnilld í nútímalega heild þar sem allir pressa og allir verjast. Stjóri er sterkastur þegar hann kemur, en Madrid gróf undan valdi hans frá upphafi,“ skrifaði Balague.

„Xabi tókst aldrei að sannfæra leikmennina um að hans leið væri sú rétta. Og án þess gat hann ekki innleitt hápressuna, hraðann, stöðufótboltann sem einkenndi Leverkusen-lið hans,“ skrifaði Balague.

Eftir flottan feril þar sem Alonso vann titla með bæði Liverpool og Real Madrid sneri hann sér að þjálfun. Hann sló í gegn hjá Bayern Leverkusen í þýska boltanum áður en hann var ráðinn þjálfari spænska stórveldisins.

Balague veltir fyrir sér framhaldinu hjá Alonso.

Mörg þeirra yrðu ánægð með að fá hann

„Hann verður að ákveða hvort hvíld sé það næsta á dagskrá hjá honum. Þeir sem þekkja hann telja að brottförin, þótt hún hafi ekki verið óskuð, verði nokkur léttir. Þetta gekk einfaldlega ekki upp. En skilaboðin frá stærstu félögum Evrópu eru skýr, mörg þeirra yrðu ánægð með að fá hann næsta tímabil, ef aðstæður leyfa,“ skrifaði Balague.

„Real Madrid er enn og aftur litið á sem sér á báti – félag sem starfar öðruvísi, takmarkar stjórann sinn og undirbýr jafnvel í kyrrþey jarðveginn fyrir brottrekstur mánuðum áður en hann á sér stað, með hjálp tryggra fjölmiðla. Næstur í röðinni er Alvaro Arbeloa, þjálfari Castilla, maður félagsins. En ef goðsögn eins og Xabi Alonso gat ekki breytt menningunni, stendur Arbeloa frammi fyrir nánast ómögulegu verkefni,“ skrifaði Balague.

Neita einfaldlega að láta stjórna sér

„Ef þetta tímabil endar án titla munu stóru liðin í Evrópu telja sig hafa fengið staðfestingu á sinni trú. Ef, vegna einnar af kunnuglegum mótsögnum fótboltans, að Real Madrid endar á að lyfta bikurum, munum við komast að sömu niðurstöðu og við gerum alltaf: Að sumir stjórar passa ákveðnum félögum og sum félög neita einfaldlega að láta stjórna sér,“ skrifaði Balague en allur pistill hans er aðgengilegur hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×